Ísland gerði í kvöld 2:2-jafntefli á útivelli gegn Ísrael í fyrsta leik 2. riðils í B-deild Þjóðadeildar UEFA í fótbolta í Haifa. Albanía leikur einnig í riðlinum og fer toppliðið upp í A-deild.
Lítið var um færi í upphafi leiks en ísraelska liðið var töluvert meira með boltann. Það skilaði fyrsta marki leiksins á 25. mínútu, þegar Liel Abada skoraði af stuttu færi á fjærstönginni eftir glæsilegan sprett hjá Manor Solomon, sem fór illa með Brynjar Inga Bjarnason.
Íslenska liðið brást afar vel við mótlætinu því það sem eftir lifði fyrri hálfleiks var nánast einstefna. Strax í næstu sókn skaut Arnór Sigurðsson rétt yfir úr virkilega góðu færi og á 36. mínútu varði Ofir Marciano í marki Ísraela stórglæsilega frá Jóni Degi Þorsteinssyni.
Jöfnunarmarkið kom loks á 42. mínútu, þegar Þórir Jóhann Helgason skoraði sitt fyrsta landsliðsmark er hann nýtti sér mistök hjá Marciano eftir fyrirgjöf frá Jóni Degi. Marciano missti boltann þá klaufalega, beint á Þóri sem skoraði af öryggi. Staðan í hálfleik var því 1:1.
Ísraelar voru meira með boltann í upphafi seinni hálfleiks og virkuðu líklegri til að skora annað markið. Það var því nokkuð gegn gangi leiksins þegar Hörður Björgvin Magnússon átti glæsilega sendingu fram völlinn á Arnór Sigurðsson, sem slapp einn í gegn og kláraði með föstu skoti í fjærhornið.
Þórir Jóhann var nálægt því að skora sitt annað mark á 81. mínútu, þegar hann átti bylmingsskot úr teignum sem Marciano varði glæsilega. Þremur mínútum síðar jafnaði Shon Weissman með skalla af stuttu færi eftir fyrirgjöf frá Doron Leidner frá vinstri.
Mörkin urðu ekki fleiri og skipta liðin því stigunum á milli sín. Næsti leikur Íslands í riðlinum er gegn Albaníu á Laugardalsvelli næstkomandi mánudagskvöld.