„Frammistaðan var bara léleg“

Albert Guðmundsson í leik með íslenska landsliðinu gegn Ísrael í …
Albert Guðmundsson í leik með íslenska landsliðinu gegn Ísrael í byrjun mánaðarins. AFP/Jack Guez

Albert Guðmundsson, leikmaður íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, talaði ekki undir rós eftir 1:0-sigur á San Marínó í vináttulandsleik ytra í kvöld og sagði frammistöðu liðsins einfaldlega hafa verið slaka.

„Frammistaðan var bara léleg í rauninni. Við eigum að gera betur, með fullri virðingu, á móti þessari þjóð,“ sagði Albert í samtali við Viaplay eftir leik.

Hann vildi ekki kenna ellefu breytingum á byrjunarliði Íslands um slælega frammistöðu liðsins í kvöld.

„Við getum svo sem alveg falið okkur á bak við einhverjar afsakanir en mér finnst við samt vera með ellefu betri fótboltaleikmenn inn á og við eigum að geta unnið og stjórnað þessum leik.“

Albert kom inn á sem varamaður gegn Ísrael þar í landi í fyrsta leik Þjóðadeildar UEFA á dögunum, 2:2-jafntefli gegn Ísrael, en kom svo ekkert við sögu í næsta leik í keppninni, 1:1-jafntefli gegn Albaníu síðastliðinn mánudag.

Hann sagði það gott að hafa fengið loks tækifærið í byrjunarliðinu í kvöld.

„Það er það og ég er bara búinn að vera drullusvekktur að vera á bekknum og vil spila alla leiki. Þetta verður Arnar [Þór Viðarsson landsliðsþjálfari] að ákveða fyrir næsta leik,“

Fjórði leikur Íslands í yfirstandandi landsleikjaglugga fer fram á mánudaginn, aftur gegn Ísrael í Þjóðadeildinni en í þetta sinnið á heimavelli. Spurður hvort Íslandi gæfist þar gott tækifæri til þess að krækja í þrjú stig sagði Albert að lokum:

„Jú mér fannst við bara spila ágætlega á móti þeim úti og við eigum bara bullandi séns á því að vinna þá heima.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka