Sigur með minnsta mun gegn slakasta liði heims

Ísland mætir San Marínó í kvöld.
Ísland mætir San Marínó í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Karlalandslið Íslands í knattspyrnu bar sigurorð af San Marínó, liðinu sem er í neðsta sæti heimslista FIFA, með naumindum þegar liðin mættust í bragðdaufum og slökum vináttulandsleik ytra í kvöld. Lokatölur urðu 1:0, Íslandi í vil.

Í fyrri hálfleik réði Ísland lögum og lofum en uppskar þó aðeins eitt mark.

Það skoraði Aron Elís Þrándarson á 11. mínútu. Atli Barkarson gaf þá fyrir frá vinstri, Dante Rossi skallaði boltann út úr vítateig, Aron Elís tók við boltanum, lét vaða af talsvert löngu færi og hitti boltann frábærlega þar sem hann hafnaði niðri í bláhorninu.

Um fyrsta landsliðsmark Arons Elísar var að ræða í hans 13. landsleik, þar sem hann bar auk þess fyrirliðabandið í fyrsta sinn.

Albert Guðmundsson og Mikael Anderson voru manna líflegastir í liði Íslands og léku oft vel sín á milli.

Mikael fékk tvö góð færi eftir frábæran undirbúning Alberts en í bæði skiptin varði Aldo Simoncini frá honum, í fyrra skiptið í utanverða stöngina.

Albert skallaði svo framhjá af stuttu færi í kjölfar laglegs spretts Mikaels upp vinstri kantinn.

Staðan því 1:0 í leikhléi.

Síðari hálfleikur fór afar rólega af stað en eftir tæplega klukkutíma leik fékk San Marínó besta færi sitt í leiknum.

Alessandro Golinucci sneri þá laglega á Ara Leifsson, Patrik Sigurður Gunnarsson, sem lék fyrsta A-landsleik sinn í kvöld, fór út fyrir eigin vítateig í sannkallað skógarhlaup, Golinucci kom boltanum til hliðar á Andrea Grandoni sem tók skotið af vítateigslínunni fyrir opnu marki en það hafnaði í hliðarnetinu við nærstöngina.

San Marínó var í kjölfarið líklegri aðilinn án þess þó að skapa sér opin færi á meðan íslenska liðið náði sér engan veginn á strik.

Síðustu rúmar tíu mínúturnar hélt íslenska liðið betur í boltann og náði loks að skapa sér opið færi í síðari hálfleiknum. Það kom þó ekki fyrr en á 88. mínútu og var það sannkallað dauðafæri.

Varamaðurinn Jason Daði Svanþórsson, sem lék sinn fyrsta A-landsleik í kvöld, sendi þá Stefán Teit Þórðarson aleinan í gegn eftir skyndisókn en skot Skagamannsins rétt utan vítateigs fór beint á Simoncini, sem var kominn langt út úr marki sínu.

Fleira markvert gerðist ekki í leiknum og naumur eins marks sigur Íslands því niðurstaðan.

Einn leikmaður til viðbótar spilaði sinn fyrsta A-landsleik í kvöld. Var það Júlíus Magnússon, fyrirliði Víkings úr Reykjavík, sem kom inn á seint í leiknum.

San Marínó 0:1 Ísland opna loka
90. mín. Að minnsta kosti fjórum mínútum verður bætti við venjulegan leiktíma.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert