Annað fjögurra marka jafntefli gegn Ísrael

Ísland og Ísrael skildu jöfn, 2:2, öðru sinni þegar þau mættust í riðli 2 í B-deild Þjóðadeild UEFA í knattspyrnu karla á Laugardalsvellinum í kvöld. Ísland komst yfir í tvígang en Ísrael jafnaði metin tvívegis.

Fyrri leik liðanna í Þjóðadeildinni í Tel Aviv í Ísrael í byrjun mánaðarins lauk einnig með 2:2-jafntefli. Ísland hefur nú gert jafntefli í öllum þremur leikjum sínum í keppninni til þessa.

Í leiknum í kvöld var fyrri hálfleikur afar líflegur þar sem fjöldi færa litu dagsins ljós hjá báðum liðum.

Eftir að Ísrael hafði byrjað leikinn ögn betur var það hins vegar Ísland sem tók forystuna með sinni fyrstu marktilraun í leiknum á níundu mínútu.

Hörður Björgvin Magnússon tók þá langt innkast af hægri kanti, fann þar Daníel Leó Grétarsson sem fleytti boltanum lengra til hliðar og nær markinu, Jón Dagur Þorsteinsson sleit sig lausan og náði laglegum, hnitmiðuðum skalla upp í markhornið, óverjandi fyrir Ofir Marciano í marki Ísrael.

Þetta var fjórða landsliðsmark Jóns Dags í hans 21. landsleik.

Örskömmu síðar var Birkir Bjarnason fyrirliði nálægt því að tvöfalda forystu Íslendinga þegar hann fékk skallafæri eftir nákvæmlega sömu uppskrift; Hörður Björgvin tók langt innkast, Daníel Leó skallaði boltann inn að markteig þar sem Birkir náði skallanum en hann fór beint á Marciano.

Ísraelsmenn náðu í kjölfarið góðum tökum á leiknum og fengu þrjú góð færi í röð með stuttu millibili eftir rúmlega 20 mínútna leik, öll eftir laglegan undirbúning Liel Abada á hægri kantinum.

Mu’nas Dabbur fékk fyrst opið skotfæri fyrir miðjum teig en missti jafnvægið, rann og skaut beint á Rúnar Alex Rúnarsson í marki Íslands, Mahmoud Jaber lét því næst reyna á Rúnar en þrumuskot hans úr teignum einnig beint á Rúnar Alex og loks komst Dabbur í gott færi en Daníel Leó renndi sér fyrir það og bjargaði í hornspyrnu.

Eftir þetta áhlaup fékk Ísland sannkallað dauðafæri. Liðið geystist þá í skyndisókn í kjölfar hornspyrnu Ísraels, Hákon Arnar Haraldsson renndi boltanum til hliðar og inn fyrir á Arnór Sigurðsson sem var sloppinn aleinn í gegn og lék með boltann inn í vítateig, tók skotið en það var of nálægt Marciano sem varði til hliðar.

Á 35. mínútu jöfnuðu gestirnir svo metin. Abada renndi boltanum þá inn fyrir á Eli Dasa, fyrirliða Ísraelsmanna, og hann lagði boltann út á Ramzi Safouri sem reyndi skot í fjærhornið, Daníel Leó renndi sér fyrir það en boltinn fór af Grindvíkingnum og í nærhornið.

Eftir það gerði Ísrael sig líklegt til þess að ná forystunni en hafði ekki erindi sem erfiði.

Síðasta orðið í fyrri hálfleiknum átti svo Ísland. Hörður Björgvin tók þá bylmingsskot beint úr aukaspyrnu rétt fyrir utan teig og hafnaði það í þverslánni þaðan sem boltinn fór svo yfir markið.

Staðan því 1:1 í leikhléi í kaflaskiptum en á heildina litið fremur jöfnum fyrri hálfleik.

Ísland hóf síðari hálfleikinn af krafti þar sem Jón Dagur komst í gott skotfæri innan teigs eftir laglega sendingu Andra Lucasar Guðjohnsen en Shon Goldberg komst naumlega fyrir skot Jóns Dags.

Örskömmu síðar átti Andri Lucas þrumuskot úr D-boganum en það fór naumlega framhjá markinu.

Ísraelsmenn tóku aðeins við sér og áttu nokkrar marktilraunir en þó engin opin færi.

Eftir klukkutíma leik náði Ísland forystunni á ný. Hörður Björgvin átti þá glæsilega skiptingu yfir á Arnór, hann tók vel við boltanum og þrumaði fyrir við endalínuna, Marciano varði boltann út í teig þar sem Þórir Jóhann Helgason var mættur og lagði boltann afar snyrtilega niður í nærhornið.

Um annað landsliðsmark Þóris Jóhanns var að ræða í 12. landsleiknum og hans annað mark í Þjóðadeildinni í þremur leikjum. Hann skoraði einnig í fyrri leiknum gegn Ísrael.

Skömmu síðar, á 66. mínútu, jafnaði Ísrael hins vegar metin á ný. Dasa átti þá góða fyrirgjöf á Dor Peretz sem skallaði í átt að marki af örstuttu færi, Rúnar Alex virtist vera að verja stórkostlega en eftir athugun VAR komust dómararnir í myndbandsherbergingu að þeirri niðurstöðu að boltinn hafi farið inn fyrir marklínuna.

Eftir jöfnunarmarkið róaðist leikurinn töluvert en þegar skammt lifði leiks fengu bæði lið dauðafæri. Varamaðurinn Sun Menachem fékk opið skotfæri í vítateignum á 82. mínútu eftir góðan undirbúning Manor Solomon en skot Menachem naumlega framhjá markinu.

Aðeins mínútu síðar átti Hákon Arnar glæsilegan sprett, lagði boltann inn fyrir með afskaplega huggulegri hælspyrnu á varamanninn Svein Aron Guðjohnsen, hann tók skotið úr kjörstöðu í vítateignum en það fór beint á Marciano.

Bæði lið freistuðu þess áfram að knýja fram sigurmark en allt kom fyrir ekki og sættust liðin því að lokum á jafnan hlut öðru sinni í Þjóðadeildinni.

Ísrael er áfram á toppi riðils 2, nú með 5 stig eftir leikina þrjá en Ísland er í öðru sæti með 3 stig.

Ísland 2:2 Ísrael opna loka
90. mín. Eyad Abu Abaid (Ísrael) fer af velli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert