Sárgrætilegt tap og Ísland í umspil

Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta þarf að sætta sig við sæti í umspili um farmiðann á sitt fyrsta lokamót heimsmeistaramótsins eftir sárgrætilegt 0:1-tap gegn Hollandi í Utrecht í lokaleik sínum í C-riðli í undankeppninni í kvöld. 

Esmee Brugts skoraði sigurmark Hollands í uppbótartíma eftir hetjulega baráttu íslenska liðsins. Með sigrinum tryggði Holland sér efsta sæti riðilsins og sæti á lokamótinu en Ísland þarf að fara í umspil í næsta mánuði.

Á einhvern óskiljanlegan hátt var staðan markalaus í hálfleik, en yfirburðir hollenska liðsins voru gríðarlegir. Liðið skapaði sér fullt af færum og hvað eftir annað fór Renate Jansen illa með íslensku vörnina á hægri kantinum.

Fyrirgjafir og hættulegir sprettir kantmannsins sköpuðu mikinn usla, en íslenska liðið slapp með skrekkinn í fyrri hálfleik.

Jill Roord átti fyrsta færi Hollendinga í fyrri hálfleik á tíundu mínútu en þá varði Sandra Sigurðardóttir vel frá henni. Eftir því sem leið á hálfleikinn varð hollenska sóknin hættulegri og íslenska liðið fór í nauðvörn.

Daniëlle Van De Donk átti skot í slá á 25. mínútu og tveimur mínútum síðar fékk hún algjört dauðafæri þegar hún fékk boltann nánast á marklínu en Sandra varði stórkostlega og á lygilegan hátt fór boltinn ekki yfir marklínuna.

Renate Jansen átti annað skot Hollands í slánna í fyrri hálfleiknum á 28. mínútu er hún lagði boltann innanfótar yfir Söndru og í tréverkið. Stefanie van der Gragt átti svo stórhættulegan skalla á 43. mínútu en þá varði Sandra í slánna og kom enn og aftur í veg fyrir mark.

Besta og í raun eina færi Íslands í fyrri hálfleiknum kom á 41. mínútu þegar Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir setti boltann nokkuð yfir úr teignum eftir sprett hjá Sveindísi Jane Jónsdóttur. Þrátt fyrir yfirburði Hollands var staðan þó markalaus í leikhléi.

Hollenska liðið var áfram sterkara í upphafi seinni hálfleiks og Jill Roord átti hættulegan skalla á 50. mínútu eftir fyrirgjöf frá vinstri kanti en Sandra ver snögg niður og varði virkilega vel.

Ísland fékk afar gott færi til að skora fyrsta mark leiksins á 72. mínútu þegar Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir átti flotta fyrirgjöf frá hægri á Sveindísi sem var í dauðafæri á fjærstönginni en hitti ekki boltann.

Varamaðurinn Damaris Egurrola var hársbreidd frá því að koma Hollandi yfir á 78. mínútu en hún skallaði í stöng eftir fyrirgjöf frá hægri og Ísland slapp enn og aftur með skrekkinn.

Þegar íslenska liðið virtist vera að halda út og tryggja sér á sitt fyrsta lokamót HM kom rýtingurinn í uppbótartíma. Esmee Brugts átti fyrirgjöf frá vinstri sem sigldi framhjá öllum og í markhornið hægra megin. Stephanie van Der Gragt truflaði Glódísi Perlu og Söndru en engin þeirra snerti boltann, 1:0. Niðurstaðan var einstaklega svekkjandi fyrir íslenska liðið, sem spilaði betur í seinni hálfleik en þeim fyrri. 

Holland 1:0 Ísland opna loka
90. mín. Sandra gerir vel í að handsama boltann eftir fyrirgjöf frá hægri. Við fáum að vita uppbótartímann eftir augnablik.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka