Ísland tryggði sér í kvöld sæti í úrslitaleik Eystrasaltsbikarsins í knattspyrnu karla eftir að hafa haft betur gegn Litháen í Kaunas eftir vítaspyrnukeppni í undanúrslitunum.
Í fyrri hálfleik var Ísland sterkari aðilinn og skapaði sér nokkur dauðafæri til þess að ná forystunni.
Flest komu þau eftir um hálftíma leik þar sem Jóhann Berg Guðmundsson skaut yfir úr góðri stöðu í vítateignum, Ísak Bergmann Jóhannesson skaut naumlega framhjá úr enn betri stöðu í teignum og Hákon Arnar Haraldsson skallaði yfir markið af markteig.
Litháar fengu einnig frábært færi á þessum 5-6 mínútna kafla þegar Fedor Cernych slapp einn í gegn en Rúnar Alex Rúnarsson gerði vel í að koma út á móti og verja með fótunum.
Markalaust var því í leikhléi eftir líflegan fyrri hálfleik.
Síðari hálfleikur var mun rólegri og fátt um fína drætti.
Birkir Bjarnason komst næst því að skora fyrir Ísland eftir klukkutíma leik þegar hann tók gott skot af vítateigslínunni en fór það naumlega yfir markið.
Á 84. mínútu fékk Hörður Björgvin Magnússon sitt annað gula spjald og þar með rautt. Það fyrr fékk hann fyrir að stöðva skyndisókn og það síðara fyrir að kasta boltanum í bak leikmanns Litháens sem var að tefja.
Einum manni fleiri settu Litháar talsverða pressu á íslenska liðið undir blálokin og fékk varamaðurinn Paulius Golubickas mjög gott færi á 88. mínútu þegar Cernych fann hann með góðri sendingu við markteiginn en Golubickas hitti boltann illa og Rúnar Alex greip hann.
Markalaust var eftir venjulegan leiktíma og því var gripið til vítaspyrnukeppni.
Í henni skoraði Ísland úr öllum sex spyrnum sínum en Litháar klúðruðu sjöttu og síðustu spyrnu sinni.
Andri Lucas Guðjohnsen, Stefán Teitur Þórðarson, Arnór Sigurðsson, Mikael Anderson, Sverrir Ingi Ingason og Aron Elís Þrándarson skoruðu úr vítaspyrnum íslenska liðsins.
Ísland mætir Lettlandi í úrslitaleik Eystrasaltsbikarsins í Riga á laugardag eftir að Lettar höfðu betur gegn Eistlandi, einnig eftir vítaspyrnukeppni, í kvöld.
Í þeim leik var staðan 1:1 eftir venjulegan leiktíma þar sem Sergei Zenjov kom Eistum yfir áður en Raimonds Krollis jafnaði metin fyrir Letta.
Í vítaspyrnukeppninni hafði Lettland svo betur, 5:3.