Tilfinning sem ég mun aldrei gleyma

Sara Björk Gunnarsdóttir ásamt syni sínum Ragnari Frank Árnasyni eftir …
Sara Björk Gunnarsdóttir ásamt syni sínum Ragnari Frank Árnasyni eftir leik Íslands og Belgíu á Evrópumótinu í sumar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta var erfið ákvörðun að taka en á sama tíma er ákveðinn léttir líka að vera búinn að koma þessu frá sér,“ sagði Sara Björk Gunnarsdóttir, fyrrverandi fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við mbl.is í dag.

Sara Björk, sem er 32 ára gömul, tilkynnti í morgun að landsliðsskórnir væru komnir á hilluna eftir afar farsælan feril en hún er leikjahæsta landsliðskona Íslands frá upphafi með 145 A-landsleiki og þá fór hún á fjögur stórmót með kvennalandsliðinu.

„Ég tók mér smá tíma eftir Portúgalsleikinn og ákvað þá að velta þessum möguleika fyrir mér fram að jólum. Ég fór yfir þetta með minni nánustu fjölskyldu og mér fannst þetta rétti tímapunkturinn fyrir mig persónulega og minn feril að láta gott heita.

Það er langt í næsta stórmót og þetta er líka álagstengt ef svo má segja. Ég er búin að slíta mér út í mörg ár og er orðin þreytt á að spila og æfa og finna fyrir sársauka. Mig langar að vera 100 prósent heil, bæði heima fyrir og með félagsliði mínu Juventus og eins þá er ég líka spennt að geta eytt meiri tíma með fjölskyldunni,“ sagði Sara Björk.

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari Íslands og Sara Björk Gunnarsdóttir á blaðamannafundi …
Þorsteinn Halldórsson, þjálfari Íslands og Sara Björk Gunnarsdóttir á blaðamannafundi á Englandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þakklát KSÍ fyrir skilninginn

Sara Björk lék sinn fyrsta A-landsleik árið 2007, þá 16 ára gömul, gegn Slóveníu.

„Þetta var auðvitað smá sjokk fyrir Knattspyrnusambandið og Steina en á sama tíma er ég þeim mjög þakklát fyrir skilninginn. Ég geng mjög stolt frá borði enda hefur margt breyst frá því ég kom fyrst inn í landsliðið. Kynslóðin sem var á undan mér lagði línurnar ef svo má segja og barðist fyrir betri umgjörð og ég er mjög þakklát fyrir það.

Stelpurnar sem skipa landsliðið á næstu árum þurfa svo að halda áfram að berjast fyrir sínu enda ýmislegt sem má betur fara en ég skil við liðið á mjög góðum stað. Þetta snýst fyrst og fremst um að geta notið þess að spila fyrir landið sitt og ég er stolt af mínum afrekum með liðinu.“

Sara Björk tók við fyrirliðabandinu hjá kvennalandsliðinu í fyrsta sinn …
Sara Björk tók við fyrirliðabandinu hjá kvennalandsliðinu í fyrsta sinn árið 2014. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gríðarlega mikill heiður

Sara tók fyrst við fyrirliðabandinu hjá landsliðinu árið 2014 þegar Freyr Alexandersson stýrði liðinu.

„Ég hef alltaf saknað Rakelar Hönnudóttur, eftir að hún hætti með landsliðinu, en það sem ég á eftir að sakna mest eru auðvitað bara stelpurnar og félagsskapurinn. Það verður mjög skrítið að fylgjast með liðinu, úr stúkunni eða í sjónvarpinu, en eins og ég hef áður sagt þá er ég sátt við mína ákvörðun.

Að vera fyrirliði liðsins hefur auðvitað einkennt mig að einhverju leyti en ég skilgreini sjálfa mig ekki sem fyrirliða kvennalandsliðsins og hef aldrei gert, þó það hafi verið gríðarlegur heiður. Það verður eflaust skrítið að vera ekki fyrirliði lengur og þetta er eitthvað sem ég mun aldrei gleyma, tilfinningunni sem fylgdi því að leiða liðið og vera leiðtogi þess.“

Sara Björk hefur verið lykilmaður í íslenska kvennalandsliðinu undanfarinn áratug.
Sara Björk hefur verið lykilmaður í íslenska kvennalandsliðinu undanfarinn áratug. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Horfir sátt til baka

Sara Björk hefur verið mikið í sviðsljósinu alveg frá því að hún var unglingur, enda ein sigursælasta knattspyrnukona Íslands frá upphafi.

„Ég hef fengið mína gagnrýni eins og allir aðrir og það er ekkert mál að taka gagnrýni þegar maður á hana skilið. Það sem böggaði mig kannski mest var umtalið í kringum mann, hjá fólki eða í fjölmiðlum. Ég lét þetta klárlega fara í taugarnar á mér á einhverjum tímapunkti en svo hætti ég að pæla í því.

Ég lagði mig alla fram fyrir landsliðið og gerði alltaf mitt allra besta. Ég er ekki bitur yfir neinu en það er líka þannig að þegar að maður er í sviðsljósinu eða opinber manneskja að þá verður alltaf ákveðin gagnrýni og umtal. Mér finnst ég hins vegar hafa tæklað það vel og horfi sátt til baka.“

Sara Björk og Glódís Perla Viggósdóttir fallast í faðma eftir …
Sara Björk og Glódís Perla Viggósdóttir fallast í faðma eftir síðasta landsleik Söru gegn Portúgal. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Löng og strembin ferðalög

En er eitthvað sem Sara Björk á ekki eftir sakna þegar kemur að landsliðinu?

„Ég á ekki eftir að sakna ykkar fjölmiðlanna neitt sérstaklega,“ sagði Sara í léttum tón. „Ég á klárlega ekki eftir að sakna þess neitt sérstaklega að mæta á blaðamannafundi heldur. Ferðalögin eru oft á tíðum löng og strembin og fundir tengdir taktík sem dæmi geta verið ansi þreytandi. Ég er komin með minn skammt af rútuferðum líka þannig að það er ýmislegt jákvætt í þessu líka,“ bætti Sara Björk við að endingu í léttum tón í samtali við mbl.is.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert