Eiður Smári opnar sig um fíknivanda

Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður Smári Guðjohnsen. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Fyrrverandi knattspyrnumaðurinn Eiður Smári Guðjohnsen fagnar ákvörðun ensku úrvalsdeildarinnar um að banna auglýsingar veðmálafyrirtækja framan á keppnistreyjum liða deildarinnar.

Eiður Smári glímdi sjálfur við spilafíkn um langt skeið og er talið að hann hafi tapað um sex milljónum punda, rúmum milljarði íslenskra króna á núverandi gengi.

Bannið tekur gildi frá og með tímabilinu 2026/2027.

„Að mínu mati hefði þetta bann átt að koma til mun fyrr. Hverju tekur maður eftir hjá félögum? Styrktaraðilanum framan á keppnistreyju. Allir fótboltaaðdáendur, allir krakkar í heiminum, sjá keppnistreyjur stærstu félaganna á hverjum degi.

Auglýsing framan á treyju sendir sterk skilaboð. Auglýsingar hafa svo mikil áhrif,“ sagði Eiður Smári er hann tjáði sig sem hluti af átaki fjarskiptafyrirtækisins Three UK og góðgerðarsamtakanna Samaritans, sem hvetur fótboltaaðdáendur til þess að ræða opinskátt um andlega líðan sína.

„Auglýsingar hafa áhrif á alla því við sjáum þær í sjónvarpinu, á auglýsingaskiltum og fótboltatreyjum. Þær eru hluti af daglegu lífi. Ég tel að bannið sendi frá sér stór og jákvæð skilaboð,“ hélt hann áfram.

Leitar í eitthvað annað til að auka adrenalínið

Er Eiður Smári var leikmaður Chelsea í úrvalsdeildinni hóf hann að glíma við spilafíkn, sem byrjaði þegar hann glímdi við meiðsli. Átti Eiður Smári það til að tapa 2.000 pundum, um 340.000 krónum, með einungis einum snúningi í lukkuhjóli á netinu.

Hann telur ýmsar gildrur geta leynst hjá knattspyrnufólki.

„Knattspyrnufólk finnur fyrir gífurlegum þrýstingi til þess að standa sig vel og vera upp á sitt besta öllum stundum. Það getur haft áhrif á mann þegar hlutirnir eru ekki að ganga upp.

Stundum leitar maður til einhvers annars til þess að auka adrenalínið. Hjá sumum getur það verið fjárhættuspil, aðrir snúa sér að áfengi eða einhverju öðru sem skyndilausn.

Það er einungis þegar maður áttar sig á því að eru engar skyndilausnir sem virka að maður byrjar að leita sér hjálpar,“ sagði Eiður Smári, sem hefur sömuleiðis glímt við áfengisfíkn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert