„Það er alltaf ömurlegt að tapa fótboltaleik og við vorum bara ekki góðir í dag,“ sagði Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, í samtali við mbl.is eftir 3:0-tap liðsins gegn FH í Bestu deild karla í knattspyrnu á frjálsíþróttavellinum í Kaplakrika í dag.
„Við byrjum á því að gefa þeim mark eftir tveggja mínútna leik og það einhvernveginn setti tóninn fyrir það sem koma skyldi. FH-ingarnir voru miklu gimmari og ákveðnari en við. Þeir spörkuðu lengra en við, voru duglegir að senda boltann inn fyrir varnarlínuna okkar og voru miklu grimmari í seinni pressunni sinni. Þeir voru einfaldlega miklu sterkari en við á öllum vígstöðvum.
Planið í síðari hálfleik var að halda áfram, eins og við enduðum fyrri hálfleikinn, þegar komið var inn í síðari hálfleikinn en við náðum einfaldlega ekki að fylgja fyrri hálfleiknum eftir. Það var erfitt að koma til baka, eftir að vera lentir 0:2, undir og það var erfitt að spila á þessum fótboltavelli líka,“ sagði Rúnar.
Þetta var annar tapleikur KR-inga í röð en liðið tapaði 0:3 gegn Víkingi úr Reykjavík í síðustu umferð.
„Það er alltaf áhyggjuefni þegar að þú tapar fótboltaleikjum en hver leikur hefur sinn líftíma ef svo má segja. Þetta var allt öðruvísi leikur í dag en síðast og aðstæðurnar líka. Þú getur alltaf fundið eitthvað, þegar að þú færð á þig mark, og ég er ósáttur við öll mörkin sem við fengum á okkur í dag.
Núna þurfum við þjálfararnir bara að setjast yfir leikinn og skoða hvað við getum gert til þess að bæta okkar leik. Víkingsleikurinn tapaðist illa þó svo að hann hafi, að mínu viti, verið ágætlega jafn í fyrri hálfleik þó svo að einhverjir aðrir vilja meina eitthvað annað en það eru menn sem hafa ekkert vit á fótbolta,“ bætti Rúnar við í samtali við mbl.is og vísaði þar í ummæli sérfræðinga Stúkunnar á Stöð 2 Sport eftir leik Víkings og KR.