Íslenska karlalandsliðið í fótbolta mátti þola 0:1-tap á heimavelli gegn Portúgal í undankeppni EM karla á Laugardalsvelli í kvöld. Cristiano Ronaldo skoraði sigurmarkið í blálokin.
Ísland er enn með þrjú stig í J-riðli og í erfiðri stöðu í baráttunni um sæti á lokamótinu í Þýskalandi á næsta ári. Portúgal er með fullt hús stiga á toppi riðilsins.
Ísland átti mjög flotta kafla í fyrri hálfleiknum, en staðan eftir hann var markalaus. Portúgal var mun meira með boltann framan af, en tókst ekki að reyna á Rúnar Alex Rúnarsson í marki Íslands.
Eftir því sem leið á hálfleikinn náði Ísland betri tökum á leiknum og um miðbik hans var íslenska liðið sterkari aðilinn og skapaði sér nokkur góð færi. Guðlaugur Victor Pálsson fékk það besta á 24. mínútu en hann skaut yfir af stuttu færi í teignum.
Hörður Björgvin Magnússon átti hættulegan skalla skömmu síðar en Diogo Costa í marki Portúgals varði vel frá honum. Jóhann Berg Guðmundsson átti svo skot rétt fram hjá undir lok hálfleiksins.
Portúgal fékk líka einhver færi og varði Rúnar Alex m.a. vel frá Pepe eftir horn um miðjan hálfleikinn. Annars þurfti hann ekki oft að taka á honum stóra sínum og var ekkert skorað í fyrri hálfleik.
Gestirnir áttu fyrsta færi seinni hálfleiks þegar Rafael Leao skaut rétt fram hjá utan teigs. Portúgal var með undirtökin næstu mínútur en náði ekki að skapa sér mjög gott færi.
Íslenska liðið var ekki langt frá því að skora fyrsta markið á 72. mínútu þegar Willum Þór Willumsson lék á nokkra varnarmenn og skaut rétt fram hjá utan teigs.
Willum gerði sig sekan um óskynsemi tæpum tíu mínútum seinna þegar hann fór af miklum krafti í tæklingu við hliðarlínuna á vallarhelmingi Portúgala og fékk fyrir vikið sitt annað gula spjald og þar með rautt.
Verkið var ærið fyrir tíu leikmenn Íslands gegn ellefu leikmönnum Portúgals og gestirnir nýttu liðsmuninn á 89. mínútu þegar Cristiano Ronaldo skoraði sigurmarkið, í sínum 200. landsleik, með skoti af stuttu færi eftir skalla frá Rúben Dias. Ísland náði ekki að skapa sér færi eftir það og grátlegt tap eftir hetjulega baráttu varð niðurstaðan.