Hneisa fyrir okkur sem knattspyrnuþjóð

Laugardalsvöllur er kominn til ára sinna.
Laugardalsvöllur er kominn til ára sinna. mbl.is/Eyþór Árnason

Börkur Edvardsson formaður Vals og Sigurður K. Pálsson framkvæmdastjóri sendu frá sér yfirlýsingu á Facebook-síðu félagsins í dag vegna þeirrar stöðu sem komin er upp í vallarmálum hér á landi.

Breiðablik spilar heimaleiki sína í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu á Laugardalsvelli, en ekki er öruggt að völlurinn verður leikhæfur út alla riðlakeppnina. Þá er Laugardalsvöllur kominn til ára sinna.

Þeir gagnrýna að ekki hafi verið gerð ráðstöfun til að í það minnsta gera Laugardalsvöll leikhæfan allt árið í kring, ásamt því að gagnrýna þann seinagang sem orðið hefur þegar kemur að byggingu nýs þjóðarleikvangar. 

Yfirlýsingin í heild sinni:

Þar kom að því sem allir vissu að myndi gerast!

Sett var á laggirnar undirbúningsfélag á vormánuðum 2018 um uppbyggingu Laugardalsvallar undir forystu og frumkvæði Guðna Bergssonar þáverandi formanns KSÍ ásamt ríkinu og Reykjavíkurborg.

Markmiðið var skýrt, nýr þjóðarleikvangur sem vígja átti á vormánuðum 2021. Kostnaðaráætlun var um 7-11 milljarðar vegna valkosts sem lagður var fram sem kostur A og 11-18 milljarðar sem valkostur B þessar upphæðir væri ugglaust hægt að margfalda í dag með tveimur eða þar um bil. Útboð á ráðgjafaþjónustu fór fram í febrúar 2020 sem dregur upp þá mynd að það hafi tekið um 2 ár frá stofnun félagsins og þar til ráðgefandi aðilar sem áttu að koma að verkinu voru ráðnir.

Í nóvember 2020 var svo tilkynnt að ríkið og borgin ætli að hefja viðræður með það að markmiði að nýr þjóðarleikvangur ætti að rísa.

KSÍ hefur lagt umtalsverða fjármuni og vinnu í undirbúningsferlið sem er nú statt sex árum síðar á upphafsreit, þessir fjármunir tapaðir fyrir utan skýrslustafla sem liggur rykugur inná kontor eða í geymslu og algjör þögn virðist ríkja um málið í dag.

Það hefur legið fyrir í fjöldamörg ár eins og fyrrum formaður KSÍ og fleiri bentu réttilega á og vöruðu við að Laugardalsvöllur í núverandi mynd og ástandi sé ekki löglegur,hæfur né boðlegur til að leika knattspyrnu í 12 mánuði á ári eins og krafan er uppi fyrir landslið og félagslið þegar leikið er í mótum á vegum FIFA og UEFA.

Meistaraflokkur kvenna Breiðabliks náði þeim stórgóða árangri að spila í riðlakeppni meistaradeildar 2020 og UEFA veitti þeim góðfúslega undanþágu til að leika sína heimaleiki á Kópavogsvelli en það fylgdi með undanþágunni frá UEFA að slíkt yrði ekki gert aftur.

Á síðasta ári var meistaraflokkur kvenna Vals mjög nálægt því að leika þennan leik aftur og viðræður komnar af stað við UEFA um undanþágu líkt og Blikar höfðu fengið en var hafnað. Þetta hafði þá þýðingu að Valur hefði þurft að leika sína leiki á erlendri grund með tilheyrandi kostnaði og álitshnekki fyrir knattspyrnuforystuna hér á landi.

Nýverið náði karlalið Breiðabliks þeim góða árangri fyrst allra karlaliða landsins að komast í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar, eins og staðan er núna þá virðist sem þeim verði ekki heimilt að spila á Kópavogsvelli og óljóst hvar þeir munu leika sína heimaleiki.

Nýjustu fréttir herma að Breiðablik muni spila á Laugardalsvelli en tekist er á við KSÍ um hver eigi að bera kostnaðinn að hafa leikvöllinn leikhæfan þrátt fyrir að reglugerðin sé nokkuð skýr um það.

Að Ísland eigi ekki boðlegan þjóðarleikvang er hneisa fyrir okkur sem knattspyrnuþjóð. Við erum að nálgast að vera 400.000 íbúar og í því samhengi má benda á frændur okkar í Færeyjum sem eru um 55.000 og eru komnir með glæsilegan þjóðarleikvang sem hægt er að spila landsleiki og Evrópuleiki félagsliða allt árið um kring.

Færeyingar tóku þá rökréttu, skynsamlegu og einföldu ákvörðun að leggja gervigras á sinn leikvang. Einfalt væri fyrir okkur að gera slíkt hið sama, lagfæra og betrumbæta Laugardalsvöllinn. Það er eins og það sé forystuvandi og þögn hjá knattspyrnuforystu landsins sem er eitthvað sem við höfum ekki átt að venjast hingað til.

“Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri Knattspyrnusambands Íslands, segir þá stöðu sem upp er komin varðandi komandi leiki Breiðabliks í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu í vetur, sýna þá grafalvarlegu stöðu sem íslenskur fótbolti er í,,

Eins og staðan er á málinu þá er líklegra að útboðsferli og framkvæmdartími á nýjum þjóðaleikvangi gæti tekið 4-6 ár en miðað við þann hraða sem hefur verið á málinu á undanförnum misserum þá er líklegra 10-12 ár.

Ýmislegt má gagnrýna sem gerst hefur í þessum málum í fortíðinni en hvað ætla menn að gera núna til að koma þessum málum til bráðabirgða í lag?

Það mætti vel gagnrýna að hafa ekki sett til bráðabirgða hitalagnir og gervigras á Laugardalsvöllinn. Með því væri vandamál félagsliða sem eru sannarlega flaggskip íslensks fótbolta þessi misserin líklegast úr sögunni í bili.

Fótboltakveðja

E.Börkur Edvardsson

Sigurður K.Pálsson

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert