„Ég veit hvað ég fæ frá þannig leikmanni,“ sagði Åge Hareide, landsliðsþjálfari karla í fótbolta, á blaðamannafundi í dag fyrir leikinn gegn Bosníu í undankeppni EM 2024 annað kvöld á Laugardalsvelli.
Ísland mátti þola svekkjandi tap fyrir Lúxemborg ytra á föstudaginn var. Er íslenska liðið í veikri stöðu til þess að ná öðru af efstu tveimur sætum riðilsins.
Åge var spurður út í hvort liðið vanti „hefðbundinn varnarmann“ í hjarta varnarinnar en vörnin var í miklu veseni gegn Lúxemborg.
„Ég var sjálfur með Kára Árnason hjá Malmö. Ég veit hvað ég fæ frá þannig leikmanni. En hann er ekki hér núna svo við verðum að velja úr þeim leikmönnum sem við erum með,“ svaraði Åge.
„Ísland er aðeins 400 þúsund manna þjóð þannig það er ekki hægt að velja á milli jafn margra leikmanna og hjá mörgum öðrum þjóðum.
Við vörðumst mjög vel gegn Slóvakíu og Portúgal í júní. Við þurfum að gera það aftur. Mikilvægast er að hugsa um þá sem gerðu mistök. Við erum eins og ein fjölskylda.
Þeta eru leikmenn sem vilja spila fyrir Ísland og standa sig vel,“ bætti Åge við.