Erfitt að vera róleg þegar enginn vill boltann

Glódís Perla Viggósdóttir skoraði skallamark í kvöld.
Glódís Perla Viggósdóttir skoraði skallamark í kvöld. Eggert Jóhannesson

 „Við erum að ná tveimur eða þremur sendingum en svo kemur úrslitasending sem er kannski ótímabær,“ sagði Glódís Perla Viggósdóttir, fyrirliði íslenska landsliðsins og Bayern München, eftir 1:0 sigur Íslands gegn Wales á Laugardalsvelli í kvöld í fyrsta leik liðanna í 3. riðli A-deildarinnar í Þjóðadeild kvenna í fótbolta. 

„Mér fannst þetta ekki spilast alveg eins og við ætluðum okkur. Við ætluðum að vera miklu meira með boltann og ætluðum ekki að verjast svona djúpt á vellinum í svona rosalega langan tíma. Af því að við skorum frekar snemma þá förum við kannski of snemma að fara að verja eitthvað og náum ekki að halda í boltann eins vel og við vildum þegar við vinnum hann en ég er gríðarlega stolt af hópnum og liðinu í dag. Mér fannst við verjast ótrúlega vel og þær skapa sér ekki nein færi og ég er gríðarlega sátt með sigurinn,“ sagði Glódís Perla í viðtali við mbl.is eftir leik en íslenska liðinu gekk ekki vel að skapa sér færi í kvöld en unnu leikinn.

Þurfum að hafa möguleika til þess að spila

„Ég held þetta snýst um að finna jafnvægið milli þess að getað varist alveg á milljón og ná púlsinum niður þegar við vinnum boltann og svo komast aðeins fyrr í stöður svo við höfum möguleika á að spila.

 Það er svolítið erfitt að vera róleg með boltann þegar það er enginn sem vill fá hann.

Það er eitthvað sem við þurfum að skoða betur því við erum að vinna boltann í góðum stöðum í dag en náum ekki að gera vel við hann.

Það hjálpar okkur ef við getum haldið lengur í boltann og náð að hvíla okkur aðeins með hann svo þetta er klárlega eitthvað sem við getum tekið með okkur úr þessum leik en ég er gríðarlega ánægð með hópinn og varnarleikinn.

Þessi barátta sem við sýndum í dag er eitthvað sem mér hefur fundist okkur vanta í undanförnum leikjum og mér fannst það skína í gegn í dag að það er enginn að fara að koma á heimavöllinn okkar og halda að það verði létt,“ sagði Glódís Perla eftir leikinn í samtali við mbl.is.

Markahæst úr miðverðinum

Glódís Perla er miðvörður en þrátt fyrir það er hún markahæsti leikmaður liðsins.

„Ég er líka leikjahæst svo hlutfallið mitt er kannski ekkert betra heldur en hjá einhverjum öðrum en ég vona að það er einhver sem tekur fram úr mér sem fyrst. Við klárlega þurfum markaskorara og við þurfum fleiri leikmenn sem skora mörk svo ég vona að ég verði ekki með þennan titil lengi,“ sagði Glódís Perla sem hefur spilað 115 landsleiki.

Erfitt verkefni framundan

Næsti leikur Íslands er gegn Þýskalandi sem er í riðlinum með Íslandi og í 6. sæti á heimslistanum. 

„Við förum inn í alla leiki til þess að vinna þá en Þýskaland á útivelli er gríðarlega stórt verkefni og kannski fyrst og fremst ætlum við að ná góðri frammistöðu og ef að það skilar okkur þremur stigum þá er það frábært,“ sagði Glódís sem spilar í Þýskalandi ásamt mörgum leikmönnum þýska liðsins og þekkir þær því vel og veit hvað þarf til þess að fá stig út úr þeim leik.

„Við þurfum einstaklingsgæði til þess að vinna þær. Við þurfum að vera fastar í einvígum og vera klárar í boxinu, þær eru mikið að krossa og skora oft eftir fyrirgjafir. Við þurfum að vera í þeim, pirra þær, sparka þær niður og gera skítaverkin sem mér finnst ótrúlega skemmtileg og ég veit að mun pirra þær ótrúlega mikið,“ sagði Glódís Perla.

Þú togar bara nógu mikið í Alexöndru Popp og þær ná ekkert að skora?

„Já vonandi, það er planið,“ sagði Glódís.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert