Algjörir yfirburðir Þjóðverja í Bochum

Berglind Rós Ágústsdóttir og Giulia Gwinn eigast við í Bochum …
Berglind Rós Ágústsdóttir og Giulia Gwinn eigast við í Bochum í dag. Ljósmynd/Firosportphoto

Þýskaland vann mjög öruggan sigur á Íslandi, 4:0, í Þjóðadeild kvenna í fótbolta á Ruhrstadion-leikvanginum í Bochum í dag.

Þjóðverjar fengu þar með sín fyrstu þrjú stig í keppninni en Ísland er með þrjú stig eftir sigurinn á Wales um daginn. Leikur Wales og Danmerkur fer fram í kvöld.

Þjóðverjar náðu undirtökunum í leiknum strax frá byrjun og sóttu af krafti að íslenska markinu. Íslenska liðið var hins vegar vel við öllu búið og fyrstu 16-18 mínúturnar liðu án þess að þýska liðið kæmist í umtalsverð færi.

En eftir besta kafla Íslands, tvær ágætar sóknir og hættulega aukaspyrnu sem Selma Sól Magnúsdóttir sendi inn í þýska vítateiginn, náðu Þjóðverjar skyndisókn. Klara Bühl óð upp vinstra megin og í átt að vítateignum og skoraði með firnaföstu skoti í nærhornið af 20 metra færi, 1:0.

Þar með var ísinn brotinn, greinilegt að fargi var létt af þýsku leikmönnunum sem gáfu enn frekar í og sóttu af miklum krafti nánast það sem eftir var hálfleiksins.

Klara Bühl fékk dauðafæri á 32. mínútu þegar hún slapp ein inn fyrir vörn Íslands eftir snöggt innkast Alexöndru Popp en Telma Ívarsdóttir varði glæsilega frá henni með úthlaupi.

Aðeins tveimur mínútum síðar var Bühl felld rétt innan vítateigs þegar hún var komin í skotfæri eftir skemmtileg tilþrif þýska liðsins hægra megin við vítateiginn. Dæmd var vítaspyrna og úr henni skoraði Giulia Gwinn af öryggi, 2:0.

Þýska liðið sótti áfram, dyggilega stutt af háværum áhorfendum á Ruhrstadion, og þriðja markið lá í loftinu á lokakafla hálfleiksins án þess þó að til frekari tíðinda drægi.

Eftir ágætar upphafsmínútur Íslands í síðari hálfleik hófst stórsókn Þjóðverja á ný. Sóknirnar buldu á íslensku vörninni og engu munaði á 53. mínútu þegar Glódís Perla Viggósdóttir bjargaði á marklínu frá Alexöndru Popp.

Lea Schüller slapp inn fyrir vörnina á 56. mínútu en var aðþrengd þegar hún skaut fram hjá markinu.

Þung sóknin skilaði þriðja markinu á 68. mínútu. Frábær fyrirgjöf Bühl frá vinstri og Lea Schüller skoraði með hörkuskalla, 3:0.

Hver sóknin á fætur annarri buldi á íslensku vörninni og á 78. mínútu skoraði Bühl sitt annað mark með hörkuskoti frá vítateig í vinstra hornið, 4:0.

Yfirburðir Þjóðverja voru nánast algjörir allt til leiksloka og íslenska liðið náði ekki að koma einu einasta skoti að marki Þjóðverja allan leikinn.

Þýskaland 4:0 Ísland opna loka
90. mín. 6 mínútum er bætt við leiktímann
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert