Vill fá Íslending í staðinn fyrir Åge

Åge Hareide hefur haft jákvæð áhrif á íslenska landsliðið.
Åge Hareide hefur haft jákvæð áhrif á íslenska landsliðið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Geir Þorsteinsson, fyrrverandi formaður KSÍ, vill að stjórn sambandsins ráði Rúnar Kristinsson sem næsta landsliðsþjálfara karlalandliðsins.

Rúnar er án starfs sem stendur, eftir að forráðamenn KR tóku þá ákvörðun að framlengja ekki samning hans við félagið.

Normaðurinn Åge Hareide er núverandi landsliðsþjálfari, en Geir vill að Rúnar taki við af þeim norska fljótlega.

Geir birti sína skoðun á Facebook í pistli sem sjá má hér fyrir neðan:

Rúnar Kristinsson í landsliðið. 

Nei, ekki er ég að leggja til að Rúnar dragi fram skóna, en þetta hefði í sjálfum sér verið fáránleg fyrirsögn áður fyrr enda Rúnar fastamaður í landsliðinu á sínum ferli sem leikmaður. En ef allt er lagt saman og metið, staða landsliðsins og uppbygging, reynsla Rúnars sem leikmanns í landsliði og atvinnumanns, reynsla Rúnars sem þjálfara og árangur og síðast en ekki síst staða KSÍ.

Þá er það örugg og góð leið fyrir íslenska knattspyrnu að Rúnar taki við landsliðinu. Það er góður kostur að fá Rúnar sem landsliðsþjálfara, hann er á lausu og getur tekið við um áramót eða eftir umspilsleikina í mars (þekki ekki samning við núverandi þjálfara). Áfram Ísland!

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert