Þjóðverjar númeri of stórir fyrir Íslendinga

Guilia Gwinn og Klara Bühl skoruðu mörk Þýskalands þegar liðið hafði betur gegn Íslandi, 2:0, í 3. riðli Þjóðadeildar kvenna í knattspyrnu á Laugardalsvelli í kvöld.

Ísland getur því ekki lengur endað í öðru sæti riðilsins, þegar tveimur umferðum er ólokið, en þriðja sæti riðilsins fer í umspil við lið úr B-deild Þjóðadeildarinnar í febrúar á næsta ári þar sem leikið verður um sæti í A-deild undankeppni EM 2025.

Ísland er með þrjú stig í þriðja sætinu sem stendur, þremur stigum meira en Wales og sex stigum minna en Þýskaland sem er í öðru sætinu. Danmörk er í efsta sætinu með 12 stig eða fullt hús stiga.

Ísland mætir Wales og Danmörku í lokaleikjum sínum ytra, 1. desember og 5. desember, en liðið í neðsta sæti riðilsins fellur í B-deild.

Íslenska liðið byrjaði leikinn ágætlega og spilaði vel út úr fyrstu pressu Þjóðverja á fyrstu mínútum leiksins.

Héldu út í fyrri hálfleik

Þjóðverjar fengu besta færi fyrri hálfleiks strax á 4. mínútu þegar Klara Bühl átti frábæra sendingu fyrir markið frá vinstri en Lea Schüller, sem var gapandi frí í teignum, átti þrumuskot sem söng í þverslánni.

Kathrin-Julia Hendrich fékk frábært færi á 12. mínútu þegar boltinn datt fyrir hana í vítateig íslenska liðsins en skot hennar fór yfir markið.

Lena Lattwein átti hörkuskot, utarlega í teignum, mínútu síðar en Telma Ívarsdóttir í marki íslenska liðsins varði vel í horn.

Á 33. mínútu átti Svenja Huth fyrirgjöf frá hægri en boltinn fór yfir allan teiginn og í stöngina fjær og út.

Þjóðverjar settu mikla pressu á íslenska liðið á lokamínútum fyrri hálfleiks, án þess að ná að skapa sér afgerandi marktækifæri, og staðan var því markalaus í hálfleik.

Vítaspyrna braut ísinn

Þjóðverjar gerðu tvær skiptingar í hálfleik þegar þær Jule Brand og Sjoeke Nüsken komu inn á og þær voru fljótar að minna á sig.

Á 50. mínútu átti Nüsken frábæran sprett upp vinstri kantinn. Hún sendi boltann svo fyrir markið á Brand sem var mætt á fjærstöngina en skalli hennar úr sannkölluðu dauðafæri fór yfir markið.

Sandra María Jessen átti skot að marki þýska liðsins á 56. mínútu, utarlega í teignum, en það var laust og Ann-Katrin Berger varði auðveldlega.

Á 59. mínútu átti Schüller flotta fyrirgjöf frá vinstri en Brand, sem var í þröngu færi, skallaði boltann í hliðarnetið.

Á 63. mínútu dró til tíðinda þegar Þjóðverjar áttu flotta fyrirgjöf frá hægri á Schüller sem var í góðu færi í teignum. Telma kom út á móti henni og kýldi hana beint í andlitið og Tess Olofsson, dómari leiksins, dæmdi strax vítaspyrnu eftir að skalli Schüllers fór rétt fram hjá markinu.

Innsigluðu sigurinn

Guilia Gwinn fór á punktinn og hún gerði engin mistök, sendi Telmu í rangt horn, og skoraði af miklu öryggi.

Hildur Antonsdóttir átti flott skot á 70. mínútu eftir vel útfærða skyndisókn íslenska liðsins en Berger var vel staðsett í markinu og varði vel.

Diljá Ýr Zomers fékk besta færi Íslands í leiknum á 85. mínútu þegar íslenska liðinu tókst að opna vörn Þjóðverja. Hlín Eiríksdóttir átti þá frábæra sendingu inn fyrir á Diljá sem var ein gegn Berger en þýski markvörðurinn lokaði vel á hana og varði.

Klara Bühl innsiglaði svo sigur Þjóðverja með marki í uppbótartíma þegar hún keyrði á varnarmenn íslenska liðsins sem voru fáliðaðir til baka.

Bühl fór illa með Glódísi Perlu Viggósdóttur og þrumaði boltanum að marki en Telma í markinu missti boltann undir sig og hann söng í netinu. Lokatölur voru því 2:0 í Laugardalnum í kvöld.

Ísland 0:2 Þýskaland opna loka
90. mín. +5 mínútur í uppbótartíma.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert