Alfreð Finnbogason, elsti leikmaður karlalandsliðsins í fótbolta sem mætir Ísraelsmönnum í EM-umspilinu í Búdapest á fimmtudaginn, segir að hann hafi tekið stórt skref í rétta átt með belgíska liðinu Eupen í vetur.
Hann hefur spilað alla leiki Eupen í Belgíu á yfirstandandi tímabili, marga þeirra þó sem varamaður, beint í kjölfarið á því að hafa byrjað tímabilið mjög vel með Lyngby í Danmörku. Eftir mikla meiðslasögu á ferlinum er Alfreð ánægður með þróun mála í vetur.
„Já, það er alveg nýtt hjá mér að spila alla leiki, eitthvað sem var markmið hjá mér síðustu ár en oftar en ekki kom eitthvað upp á. Þegar ég fór til Lyngby í Danmörku í fyrra lenti ég í tvennum meiðslum, fór úr axlarlið og viðbeinsbrotnaði, slys sem lítið var hægt að gera við,“ sagði Alfreð við mbl.is eftir æfingu landsliðsins í Búdapest í kvöld.
„Það er ekkert leyndarmál að eftir að hafa átt mikið í meiðslum undanfarin ár hefur það verið markmið hjá mér að ná mér á strik. Besta forvörnin er að æfa og spila og ég hef ekki misst af æfingu allt þetta tímabil. Samt byrjaði ég snemma í Danmörku og fór síðan yfir til Belgíu í haust, þannig að ég er gríðarlega ánægður með líkamlega ástandið á mér.
Auðvitað vill maður spila hvern einasta leik frá byrjun en eftir sem áður hef ég spilað margar mínútur samtals á þessu tímabili og horfi á það jákvæða,“ sagði Alfreð Finnbogason en hann hefur spilað alla 27 leiki Eupen í belgísku A-deildinni frá því hann kom þangað í ágúst, ellefu þeirra í byrjunarliðinu.
Eupen, sem Alfreð og Guðlaugur Victor Pálsson leika með, er í mikilli fallbaráttu en hefðbundinni keppni í A-deildinni lauk um helgina. Liðið endaði í 14. sæti af 16 liðum en fjögur neðstu liðin fara í sérstaka fallkeppni þar sem þau leika tvöfalda umferð. Efsta liðið bjargar sér frá falli og það næsta fer í umspil á meðan tvö neðstu falla. Ásamt Eupen, sem er með 24 stig, eru þetta Charleroi (29 stig), Kortrijk (24 stig) og Molenbeek (23 stig).
„Já, við erum í þriðja neðsta sætinu og ef við endum þar þýðir það umspil við lið úr B-deildinni. Við erum fimm stigum frá örugga sætinu, og svo hætti þjálfarinn okkar eftir síðasta leik þannig að það er smá óvissa eins og er, en vonandi náum við að finna dampinn. Við höfum verið afar óstöðugir og það er ástæðan fyrir þeirri stöðu sem við erum í. Þetta hefur verið krefjandi tímabil fyrir liðið og mann sjálfan að taka þátt í því en maður reynir alltaf að horfa á jákvæðu hliðarnar,“ sagði Alfreð.
Ítarlega er rætt við Alfreð um leikinn gegn Ísrael í Morgunblaðinu í fyrramálið