Ísraelar sóttu hart að þjálfara Íslands

Åge Hareide var þungur á brún undir sumum spurningum Ísraelsmannanna …
Åge Hareide var þungur á brún undir sumum spurningum Ísraelsmannanna en svaraði þeim vel og lipurlega. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Ísraelskir fréttamenn sóttu hart að Åge Hareide, landsliðsþjálfara Íslands, fréttamannafundi á Szouza Ferenc-leikvanginum í Búdapest í dag.

Þar voru hann og Jóhann Berg Guðmundsson mættir til að ræða leikinn við Ísrael í umspilinu fyrir EM sem fram fer annað kvöld en Ísraelsmennirnir spurðu hann talsvert út í ummæli sem höfð voru eftir Hareide þar sem hann sagði m.a. að hann hefði helst ekki viljað spila gegn Ísrael.

Þar sem málfrelsi ríkir

Spurður af ísraelskum fréttamanni hvort hann sæi eftir þessum ummælum sínum svaraði Norðmaðurinn:

„Ég kem frá þjóð þar sem málfrelsi ríkir og maður má segja sínar skoðanir. Hvað þetta varðar held ég að sumt sem ég sagði hafi skolast til í þýðingum og tekið úr samhengi. Ég hef áhuga á stjórnmálum, ég veit allt um gíslatökuna, og ég sagði líka síðar að það ætti að frelsa gíslana, hætta stríðsátökum og koma á friði. Ég kem frá friðsamri þjóð og tek ekki afstöðu í pólitík. Við spilum gegn knattspyrnumönnum og það skiptir mestu máli. Margir leikmanna Ísraels hafa spilað víðs vegar um Evrópu og ég hef ekki neitt á móti þeim.“

Misskilst oft í þýðingum

Skilurðu hvað Ísraelsmenn hafa gengið í gegnum, muntu taka í hönd þeirra fyrir og eftir leikinn á morgun?

„Já, auðvitað. Þetta eru knattspyrnumenn eins og við og ég tel ekki rétt að fara út í pólitískar umræður í kringum þennan leik. Þær misskiljast oft í þýðingum. Ég vildi bara segja, við spilum fótbolta og þurfum að spila þennan leik. Það er fyrir löngu búið að skipuleggja mótin og leikina og við vissum ekki hverjum við myndum mæta. Við erum líka að fara að spila við ísraelska fótboltamenn, ekki við ísraelsku þjóðina, það skiptir mestu máli.“

Þá myndi ég finna mér aðra vinnu

Hverju hefurðu mestar áhyggjur af varðandi lið Ísraels?

„Ég hef vanalega aldrei áhyggjur af neinum mótherjum. Þá myndi ég finna mér aðra atvinnu.“

Er minni pressa á þér en þjálfara Ísraels?

„Nei, ég held að það sé sama pressa á báðum liðum. Bæði lið eiga gott tækifæri á að komast áfram, þetta eru undanúrslit og úrslitaleikur í húfi. Pressan er því sú sama. Ég veit ekki hvort sé meiri pressa á Ísrael.“

Leiðinlegt að geta ekki spilað á heimavelli

Finnurðu til með þjálfara og leikmönnum Ísraels að geta ekki spilað þennan heimaleik á heimavelli?

„Já, algjörlega. Staðan er bara svona, Maccabi Tel Aviv og Maccabi Haifa hafa þurft að spila Evrópuleiki á útivöllum. Þeir áttu að vera á heimavelli en fá það ekki sem er leiðinlegt. Ég finn til með leikmönnum og þjálfara ísraelska liðsins. Það hefði ekki verið neitt mál fyrir okkur að spila í Ísrael ef það hefði verið leyft af öryggisástæðum," sagði Åge Hareide.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert