„Þetta var eins grátlegt og það gerist. Ég veit ekki hvernig á að lýsa því betur,“ sagði Jón Dagur Þorsteinsson í samtali við Stöð 2 Sport eftir 2:1-tap fyrir Úkraínu í úrslitaleik umspils um laust sæti á EM 2024 í kvöld.
Jón Dagur átti tvö stórhættuleg skot í leiknum en í bæði skiptin sá Andriy Lunin, markvörður Real Madríd, við honum með góðum vörslum.
„Mér leið allavega eins og það hafi munað litlu í leiknum. Ég á eftir að sjá það aftur en það var eins og hann væri búinn að lesa mig. Mér fannst alltaf vera mættur í hornið, ég veit ekki hvað það var,“ sagði hann um skotin tvö.
Ísland leiddi með einu marki í leikhléi en Úkraína jafnaði metin í byrjun síðari hálfleiks
Hvað gerðist í byrjun seinni hálfleiks?
„Það er kannski erfitt að segja til um það svona beint eftir leik. Ég er ekki búinn að sjá það en úti á velli leit fyrsta markið svolítið slappt út og það breytti leiknum.
En við vorum ennþá inni í þessu þegar það var 1:1. Svo kemur seinna markið og við búnir að eyða ótrúlega mikilli orku í að reyna að halda þessu þannig að það var það sem gjörbreytti leiknum,“ sagði Jón Dagur.
Spurður hvort það hafi verið erfitt að gíra sig upp eftir annað mark Úkraínu seint í leiknum sagði hann:
„Já, algjörlega. Mér fannst það breyta leiknum helvíti mikið. Við vorum inni í þessu í 1:1 og framlenging og allt það eftir. Seinna markið drap leikinn að vissu leyti.“
Var um mest svekkjandi tap þitt á ferlinum að ræða?
„Já, já, hundrað prósent,“ sagði Jón Dagur að lokum.