Leikmenn sem verður áhugavert að sjá í treyjunni

Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari.
Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, tilkynnti í dag landsliðshópinn sem mætir Austurríki í tveimur leikjum í undankeppni EM 2025 í lok maí og byrjun júní.

Katla Tryggvadóttir og Emilía Kiær Ásgeirsdóttir koma inn sem nýliðar auk þess sem Cecilía Rán Rúnarsdóttir er í hópnum á ný eftir langa fjarveru vegna alvarlegra hnémeiðsla.

Á fréttamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal í dag fór Þorsteinn yfir stöðuna á hópnum og fjarveru nokkurra leikmanna.

„Cecilía kemur inn sem þriðji markmaður. Kristín Dís [Árnadóttir] og Ásdís Karen [Halldórsdóttir] halda sínum sætum og svo koma Katla og Emilía Kiær inn. Sædís [Rún Heiðarsdóttir] er meidd. Bryndís Arna [Níelsdóttir] er líka meidd, hún er viðbeinsbrotin.

Hafrún [Rakel Halldórsdóttir] er handleggsbrotin. Hún er að komast í gang á næstu dögum en ég taldi ekki rétt að kalla hana inn núna. Hún átti að fara úr gifsi í dag held ég og gæti hugsanlega spilað aðra helgi ef allt gengur að óskum.

Þessar breytingar eru að hluta til af þessum orsökum en að hluta til er ég að kalla í leikmenn sem verður áhugavert að sjá í treyjunni,“ sagði landsliðsþjálfarinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert