Þetta var trúðamark

Hólmar Örn í baráttunni við Atla Arnarson í Kórnum í …
Hólmar Örn í baráttunni við Atla Arnarson í Kórnum í kvöld. mbl.is/Eyþór Árnason

„Mér fannst við skapa fullt af færum og við hefðum getað skorað meira en við förum sáttir heim með þrjú stig,“ sagði Hólmar Örn Eyjólfsson fyrirliði Vals í samtali við mbl.is eftir sigur á HK, 2:1, á útivelli í Bestu deildinni í fótbolta í kvöld.

Arnþór Ari Atlason jafnaði í 1:1 fyrir HK um miðjan seinni hálfleik með skalla af rúmlega 20 metra færi eftir að Frederik Schram í marki Vals sparkaði boltanum í höfuðið á honum.

„Þetta var trúðamark og ótrúlegt að fá svona mark á sig og setja sig í erfiða stöðu. Við sköpuðum okkur fullt af færum eftir það, en það var smá stress að fá 1:1 í andlitið en við erum með mikil gæði fram á við sem klára þetta fyrir okkur.“

Staðan í hálfleik var markalaus, en þeir Patrick Pedersen og Birkir Már Sævarsson komu inn á sem varamenn fyrir seinni hálfleikinn og lífguðu upp á leik Valsliðsins. „Við fórum líka yfir ákveðin atriði sem við gátum gert betur. Við díluðum ekki nógu vel við leikskipulagið þeirra í fyrri hálfleik. Við gerðum það betur í seinni.“

Valur lék þrjá leiki í röð án sigurs eftir sigur í fyrstu umferðinni. Síðan þá hefur liðið unnið þrjá í röð. „Við vorum staðráðnir í því að byrja að sýna okkar rétta andlit. Leikurinn gegn Fylki hefði samt alveg getað fallið okkar megin, þar sem við klúðrum dauðafærum,“ sagði Hólmar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert