Hvernig leik eigum við von á í kvöld þegar England og Ísland mætast frammi fyrir 90 þúsund áhorfendum á troðfullum Wembley-leikvanginum í London?
Þetta er vináttulandsleikur tveggja ólíkra liða sem eru með ólíka dagskrá næstu vikurnar. Englendingar leika sinn síðasta leik fyrir lokakeppni EM í fótbolta þar sem þeir mæta Serbum í fyrsta leiknum níu dögum síðar.
Íslenska liðið er hins vegar að horfa til haustsins, þegar það spilar sex leiki í Þjóðadeildinni, og norski þjálfarinn Åge Hareide freistar þess að byggja ofan á ágæta leiki liðsins í mars þegar það var afskaplega nærri því að tryggja sér sæti á EM í Þýskalandi.
Englendingar tilkynntu 26 manna hóp sinn fyrir EM í gær, hættu við að bíða með það þar til eftir leikinn gegn Íslandi, og það kann að hafa áhrif. Annars vegar þurfa ensku leikmennirnir ekkert endilega að sýna sig og sanna og verða kannski aðeins afslappaðri en ella.
En hins vegar gæti það einmitt kallað fram þeirra bestu hliðar, stressið úr sögunni og allir farnir að einbeita sér að því að spila eins og þeir ætla sér að gera á stórmótinu í Þýskalandi.
Þegar England og Ísland mættust við nákvæmlega sömu kringumstæður fyrir 20 árum unnu Englendingar stórsigur, 6:1. Þeir voru á leið á EM og enskir fjölmiðlar gerðu mikið úr því fyrir leikinn að íslensku leikmennirnir væru grófir og gætu meitt stjörnurnar þeirra á versta tíma.
Þessi umræða hafði greinilega áhrif á íslenska liðið sem spilaði áferðarfallegan fótbolta en tæklingarnar voru sparaðar, liðið fékk ekki eitt einasta gult spjald og kraftmiklir Englendingar nýttu sín sóknarfæri vel.
Greinina í heild sinni má sjá í Morgunblaði dagsins.