Holland reyndist ofjarl Íslands í Rotterdam

Holland hafði örugglega betur gegn Íslandi, 4:0, þegar liðin áttust við í vináttulandsleik í knattspyrnu karla á De Kuip-leikvanginum í Rotterdam í kvöld.

Hollenska liðið var með töluverða yfirburði í leiknum og tókst því íslenska ekki að fylgja eftir frábærum 1:0-sigri á Englandi á Wembley-leikvanginum á föstudagskvöld.

Xavi Simons, Virgil van Dijk, Donyell Malen og Wout Weghorst skoruðu mörk Hollands. Þrjú þeirra komu í síðari hálfleik þó Ísland hafi að mörgu leyti spilað betur í honum en þeim fyrri.

Memphis Depay reynir hjólhestaspyrnu að marki Íslands en Valgeir Lunddal …
Memphis Depay reynir hjólhestaspyrnu að marki Íslands en Valgeir Lunddal Friðriksson er til varnar. Ljósmynd/Alex Nicodim

Erfiður fyrri hálfleikur en aðeins eitt mark

Íslenska liðið byrjaði leikinn prýðilega og hélt boltanum vel en átti erfitt uppdráttar frá 15. mínútu þegar hollenska liðið hóf að leika mjög vel og skapa sér mikinn fjölda góðra færa.

Sérstaklega tókst Hollandi reglulega að finna hægri bakvörðinn Denzel Dumfries í hlaupum inn í vítateig fyrir aftan Kolbein Birgi Finnsson. Í eitt slíkt skipti kom fyrsta mark leiksins um miðjan fyrri hálfleikinn.

Joey Veerman átti þá góða sendingu vinstra megin við vítateiginn, kom boltanum yfir Kolbein Birgi og á Dumfries, hann skallaði boltann viðstöðulaust þvert fyrir markið þar sem Xavi Simons kom boltanum auðveldlega í netið af örstuttu færi.

Mikael Anderson og Hákon Arnar Haraldsson í baráttunni í Rotterdam …
Mikael Anderson og Hákon Arnar Haraldsson í baráttunni í Rotterdam í kvöld. Ljósmynd/Alex Nicodim

Memphis Depay gerði sig nokkrum sinnum líklegan til þess að skora í fyrri hálfleik en í tvígang varði Hákon Rafn Valdimarsson vel frá honum, einu sinni skaut Depay framhjá fyrir miðjum vítateignum og í eitt skiptið fór skot hans úr teignum af varnarmanni og rétt yfir markið.

Cody Gakpo komst þá einu sinni nálægt því að skora en skot hans af vítateigslínunni fór í utanvert hliðarnetið.

Ísland átti nokkrar álitlegar sóknir í fyrri hálfleiknum en ekkert varð úr neinni þeirra og íslenska liðið átti ekki eitt einasta skot í honum.

Staðan í leikhléi var 1:0, Hollandi í vil.

Van Dijk tvöfaldaði forystuna

Nánast strax í upphafi síðari hálfleiks, á 49. mínútu, tvöfaldaði Holland forystuna.

Veerman tók þá hornspyrnu frá hægri, fann Jerdy Schouten á nærstönginni, hann skallaði boltann fyrir markið á Nathan Aké sem vann annan skallaboltann, beint á kollinn á fyrirliðann Virgil van Dijk sem skallaði boltann niður í vinstra hornið af stuttu færi.

Skömmu síðar, á 54. mínútu, kom loksins fyrsta marktilraun Íslands í leiknum. Fyrirliðinn Jóhann Berg Guðmundsson átti þá gott skot fyrir utan vítateig eftir skyndisókn en boltinn fór af varnarmanni og aftur fyrir.

Í kjölfar hornspyrnunnar vann Jón Dagur Þorsteinsson boltann inni í vítateig Hollands, renndi honum fyrir markið en Hollendingar náðu að hreinsa frá af markteig.

Byrjunarlið Íslands í Rotterdam í kvöld.
Byrjunarlið Íslands í Rotterdam í kvöld. Ljósmynd/Alex Nicodim

Þrumufleygur Stefáns Teits

Eftir þetta róaðist leikurinn töluvert en á 70. mínútu átti varamaðurinn Stefán Teitur Þórðarson frábæra tilraun af um 30 metra sem small í stönginni.

Stuttu síðar átti Jóhann Berg góða fyrirgjöf úr aukaspyrnu af hægri kantinum, beint á Sverri Inga Ingason sem náði skalla af nærstönginni en framhjá markinu.

Fimm mínútum síðar, á 79. mínútu, skoraði Holland þriðja markið. Þar var að verki Donyell Malen, sem hafði komið inn á sem varamaður aðeins fjórum mínútum áður.

Arnór Ingvi Traustason, Jóhann Berg Guðmundsson og Andri Lucas Guðjohnsen …
Arnór Ingvi Traustason, Jóhann Berg Guðmundsson og Andri Lucas Guðjohnsen hita upp í Rotterdam í kvöld. Ljósmynd/Alex Nicodim

Hollendingar gerðu endanlega út um leikinn

Slapp hann í gegn eftir laglega stungusendingu frá Depay og kláraði af öryggi niður í nærhornið með skoti hægra megin úr vítateignum.

Skömmu síðar skoraði Holland fjórða markið, það gerði Depay eftir laglega fyrirgjöf varamannsins Jeremie Frimpong, en eftir athugun í VAR var markið dæmt vegna þess að Veerman hafði handleikið knöttinn í aðdragandanum.

Jón Dagur Þorsteinsson og Kolbeinn Birgir Finnsson hita upp.
Jón Dagur Þorsteinsson og Kolbeinn Birgir Finnsson hita upp. Ljósmynd/Alex Nicodim

Enn var tími fyrir heimamenn að bæta fjórða markinu við. Það kom á þriðju mínútu uppbótartíma venjulegs leiktíma.

Varamaðurinn Malen fékk boltann þá inn fyrir, renndi boltanum fyrir á annan varamann, Wout Weghorst, sem vippaði boltanum snyrtilega yfir Hákon Rafn af stuttu færi.

Upphaflega var markið dæmt af vegna rangstöðu á Malen en eftir athugun í VAR reyndist það röng niðurstaða og markið fékk að standa.

Niðurstaðan því fjögurra marka sigur Hollands, sem lítur afskaplega vel út fyrir EM sem hefst í lok vikunnar.

Holland 4:0 Ísland opna loka
90. mín. Ísland fær hornspyrnu +2 Ekkert kemur út úr henni.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka