Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta er komið á Evrópumótið sem fram fer í Svíss á næsta ári.
Ísland komst á mótið með lygilegum sigri á ógnasterku liði Þýskalands, 3:0, í næstsíðustu umferð undankeppninnar á Laugardalsvellinum í dag.
Þetta verður því fimmta Evrópumótið í röð þar sem Ísland er á meðal þátttökuþjóða en Ísland lék á EM 2009, 2013, 2017 og 2022.
Fyrir lokaumferðina er Þýskaland með 12 stig og Ísland 10 en bæði liðin eru komin á EM 2025. Austurríki er með 7 stig eftir sigur á Póllandi í dag, 3:1, en Pólland er neðst, án stiga, og er fallið niður í B-deild.
Íslenska liðið mætir Póllandi ytra næstkomandi þriðjudag í lokaleik riðilsins. Vinni Ísland þann leik og Þýskalandi tekst ekki að vinna Austurríki mun Ísland vinna riðilinn.
Sveindís Jane Jónsdóttir fékk upplagt tækifæri strax á annarri mínútu leiksins. Þá stakk hún Þjóðverja af og var komin ein gegn Merle Frohms markverði Þýskalands en setti boltann rétt fram hjá.
Á næstu tíu mínútum fékk Nicole Anyomi framherji Þýskalands tvö góð færi en hitti ekki á markið.
Ingibjörg Sigurðardóttir kom íslenska liðinu yfir á 14. mínútu leiksins með skallamarki. Þá gaf Karólína Lea Vilhjálmsdóttir boltann fyrir úr hornspyrnu sem fór af bakinu á Sveindísi og beint á kollinn á Ingibjörgu og í netið, 1:0 fyrir Íslandi.
Þjóðverjar sóttu meira eftir að íslenska liðið komst yfir og fengu nokkur góð færi. Það besta kom undir lok fyrri hálfleiksins þegar að Fanney Inga Birkisdóttir varði fast skot Leu Schüller glæsilega.
Íslenska liðið fór þar með marki yfir til búningsklefa, 1:0.
Alexandra Jóhannsdóttir kom Íslandi í 2:0 á 52. mínútu með frábæru skoti utan teigs. Þá fékk hún boltann frá Sveindísi eftir mistök í vörn Þýskalands og smellti honum í neðra fjærhornið fram hjá Merle Frohms markverði.
Á 61. mínútu bjargaði fyrirliðinn Glódís Perla Viggósdóttir meistaralega á línu þegar að Laura Freigang reyndi skalla aftur fyrir sig.
Sveindís Jane Jónsdóttir skoraði þriðja mark Íslands á 83. mínútu. Þá fékk hún boltann beint frá Söru Doorsoun og var ein gegn Frohms. Hún þakkaði fyrir sig og smellti boltanum í vinstra hornið.
Glæstur sigur Íslands staðreynd og eflaust verður fagnað langt fram á nótt.