FHL tryggði sér sæti í Bestu deild kvenna með 5:1 sigri gegn ÍBV í 1. deild kvenna í knattspyrnu á Reyðarfirði í dag. Þetta er fyrsta Austurlandsliðið í efstu deild í 30 ár en Höttur var síðast árið 1994.
Úrslitin í dag þýða að FHL er á toppnum með 37 stig en ÍBV er í fjórða sæti með 22 stig.
Emma Hawkins kom FHL yfir á 5. mínútu með marki úr vítaspyrnu, 1:0.
Hawkins tvöfaldaði forystu FHL snemma í síðari hálfleik. Á 56. mínútu skoraði Selena Salas úr vítaspyrnu og kom FHL í 3:0.
Ágústa María Valtýsdóttir minnkaði muninn fyrir ÍBV á 70. mínútu.
Emma Hawkins skoraði sitt þriðja mark á 81. mínútu. Hún er markahæst í deildinni með 24 mörk í 14 leikjum.
Samantha Rose Smith innsiglaði sigur FHL með marki á 89. mínútu. Fleiri urðu mörkin ekki og endaði leikurinn með 5:1 sigri FHL.