Arnar er einn besti þjálfari Íslandssögunnar

Danijel Dejan Djuric
Danijel Dejan Djuric mbl.is/Eyþór Árnason

Danijel Dejan Djuric leikmaður Víkings úr Reykjavík var kátur er hann ræddi við mbl.is eftir sigur á FH, 3:0, í fyrstu umferð efri hluta Bestu deildarinnar í fótbolta á Víkingsvelli í kvöld.

„Mér fannst frammistaðan okkar mjög góð. Þetta var skemmtilegur leikur til að spila og horfa á. Þetta var opnari leikur en er oftast hjá okkur. Það var bæði skemmtilegt að spila hann og örugglega horfa á hann líka,“ sagði Danijel við mbl.is eftir leik.

Staðan var 1:0 í klukkutíma, eða þar til Helgi Guðjónsson skoraði annað markið sitt og annað mark Víkinga á 73. mínútu.

„Mér leið ekkert rosalega vel. Það er ekkert gaman að vera bara 1:0 yfir, þú vilt komast tveimur eða þremur mörkum yfir. Þegar við skorum annað markið vissi ég að þetta væri komið,“ sagði hann.

Danijel er afar hrifinn af því að spila með Helga, sem skoraði tvö mörk í kvöld.

„Það er geggjað. Hann á það 100 prósent skilið. Það er ótrúlega gott að spila með honum og hann veit hvaða hlaup ég tek og öfugt. Hann á allt hrós skilið. Hann fær fyrirsagnirnar og það er verðskuldað.“

Víkingur tapaði fyrir KA í bikarúrslitum síðastliðinn laugardag og Danijel viðurkenndi að það tók á, sérstaklega þar sem hann var ekki í byrjunarliðinu.

„Þetta er í fyrsta skipti sem ég tapa í bikarúrslitum. Ég er ekki vanur því að tapa og sérstaklega ekki svona stórum leikjum. Auðvitað var það erfitt fyrir mig persónulega að byrja ekki, en Arnar stýrir þessu og hann er einn besti þjálfari Íslandssögunnar.“

Víkingur og Breiðablik eru bæði með 52 stig þegar liðin eiga fjóra leiki eftir hvort. „Þetta er geggjað. Það er gaman þegar hver leikur skiptir svona miklu máli. Það er ekki eins gaman fyrir áhorfendur þegar eitt lið stingur af. Vonandi verður þetta svona allt til loka,“ sagði Danijel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert