Margir telja að Spánverjum takist loksins að brjóta ísinn og vinni sitt fyrsta stórmót í 44 ár á EM í Austurríki og Sviss en Spánverjar fögnuðu Evrópumeistaratitlinum árið 1964. Síðan þá hafa þeir ekki unnið titil og hafa oftar en ekki farið heim með skottið á milli fótanna.
Frá því Spánverjar lyftu Evrópubikarnum á loft á heimavelli árið 1964 með sigri á Sovétríkjunum sálugu í úrslitaleik hafa þeir tekið þátt í 13 stórmótum án þess að vinna en næst komust þeir árið 1984 þegar þeir töpuðu í úrslitaleik Evrópumótsins gegn Frökkum.
Luis Aragones landsliðsþjálfari Spánverja var 25 ára gamall þegar Spánverjar unnu sinn eina stóra titil til þessa en Aragones verður 70 ára gamall í júlí.
„Ég tel mitt lið vel í stakk búið fyrir þessa úrslitakeppni og liðið hefur vel burði til að fara alla leið og að því stefnum við,“ segir Aragones en Spánverjar eru í D-riðli ásamt Evrópumeisturum Grikkja, Rússum og Svíum.
„Í fljóti bragði sýnist mér að Þjóðverjar, Ítalir og Frakkar verði okkar helstu keppinautar en það er mjög erfitt að spá fyrir um mótið. Portúgal er með frábært lið sem og Rúmenía og Evrópumeistarar Grikkja sýndu það í undankeppninni að þeir eru með hörkulið,“ segir Aragones.