Robben orðinn heill heilsu

Robben teygir á ásamt Robin van Persie á æfingu í …
Robben teygir á ásamt Robin van Persie á æfingu í dag. Reuters

Hollenski knattspyrnumaðurinn Arjen Robben kom vel út úr læknisskoðun í dag og verður klár í slaginn þegar Holland mætir Frakklandi á morgun í sannkölluðum stórslag á Evrópumótinu í Sviss og Austurríki.

Robben var ekki með þegar Hollendingar unnu 3:0 sigur á heimsmeisturum Ítala á mánudaginn vegna tognunar í nára. Hann hefur hins vegar náð sér að fullu og það fyrr en áætlað var. „Ég er mjög ánægður með að hann skuli hafa náð sér svo fljótt. Hann æfði í morgun og er tilbúinn,“  sagði Marco van Basten þjálfari Hollendinga.

Van Basten gæti átt í erfiðleikum með að velja byrjunarliðið á morgun því auk Robben er Robin van Persie kominn á fullan skrið. „Það er erfitt að finna þeim stað í vinningsliði, en þetta er skemmtilegt vandamál fyrir mig,“ sagði van Basten.

Tveir leikmenn Hollands verða þó líklega ekki með í leiknum á morgun því Klas-Jan Huntelaar og Mario Melchiot glíma við smávægileg meiðsli.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert