„Gjörsamlega óskiljanlegt“

Webb fær ekki jólakort frá þjálfara Póllands.
Webb fær ekki jólakort frá þjálfara Póllands. Reuters

Leo Beenhakker, landsliðsþjálfari Póllands, er allt annað en sáttur með frammistöðu Englendingsins Howard Webb, dómara í leik Póllands og Austurríkis á Evrópumótinu í knattspyrnu í gær. „Kannski vildi hann bara sýna að hann væri stór strákur sem þyrði að taka stórar ákvarðanir,“ sagði Beenhakker, en Webb dæmdi umdeilt víti í uppbótartíma leiksins sem Austurríki nýtti til að jafna metin.

„Ég hef verið í fótbolta í 43 ár og aldrei lent í öðru eins. Þetta er mér gjörsamlega óskiljanlegt,“ sagði Beenhakker.

Pólland hefur nú aðeins eitt stig í B-riðli og þarf kraftaverk til að komast áfram því auk þess að þurfa að vinna Króatíu í sínum síðasta leik þarf liðið að treysta á að Austurríki vinni Þýskaland með minni mun en Pólland vinnur Króatíu.

„Það er erfitt að sætta sig við þetta en ég reyni mitt besta. Ég er ánægður með strákana og get ekkert kvartað yfir þeim. En þetta er ekki lengur í okkar höndum og niðurstaðan virðist vera sú að við séum dottnir úr keppni,“  sagði Beenhakker.

Kollegi hans hjá Austurríki, Josef Hickersberger, var öllu rólegri og vildi lítið kvarta yfir rangstöðumarki Pólverja.

„Mér var sagt að mark Pólverja hefði verið rangstöðumark en ef að dómarinn flautar ekki þá er það mark,“  sagði Hickersberger.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert