Tyrkland tryggði sér 3:2-sigur gegn Tékkum á A-riðli Evrópumótsins í knattspyrnu í kvöld með ótrúlegum lokakafla. Tékkar sitja eftir með sárt ennið en þeir voru 2:1 yfir þegar um 5 mínútur voru eftir af leiknum. Sviss sigraði Portúgal, 2:0, en úrslitin úr þeim leik skiptu ekki máli þar sem að Portúgal var þegar komið áfram.
Jan Koller skoraði fyrsta mark leiksins á 34. mínútu fyrir Tékka og Jaroslav Plasil bætti við öðru marki fyrir Tékka um miðjan síðari hálfleik. Arda Turan kom Tyrkjum á blað þegar korter var eftir af leiknum og á síðustu 5 mínútum leiksins skoraði Nihat Kahveci tvívegis.
Fylgst var með gangi mála í báðum leikjunum í beinni textalýsingu á mbl.is.