Roberto Donadoni, þjálfari Ítalíu, segist trúa því og treysta að Hollendingar muni sækja til sigurs í leik sínum við Rúmeníu í kvöld. Vinni Rúmenar tryggja þeir sér sæti í átta liða úrslitum, líkt og Hollendingar hafa þegar gert, á kostnað Frakka og Ítala.
Með því að tapa fyrir Rúmenum gætu Hollendingar losnað við tvær af stærstu knattspyrnuþjóðum heims, Frakka og Ítali, úr keppninni og þar með sloppið við að mæta þeim í undanúrslitum ef svo ber undir.
„Marco van Basten, þjálfari Hollands, er heiðarlegur maður með mikið keppnisskap. Ég treysti honum,“ sagði Donadoni, en þeir félagar léku saman með AC Milan á sínum tíma.
„Ég trúi á heiðarleika fólks. Jafnvel þó að Holland stilli upp varaliði þýðir það ekki að þeir tapi. Þvert á móti tel ég að varamennirnir vilji sýna að þeir eigi skilið sæti í aðalliðinu. Við verðum hins vegar að vinna Frakka og ég sé það á leikmönnunum að þeir vilja virkilega sýna hvað þeir geta í þessum leik,“ sagði Donadoni.