Ítalir unnu í kvöld öruggan 2:0 sigur á Frökkum og munu því mæta Spánverjum í átta liða úrslitum Evrópumótsins í knattspyrnu. Hollendingar, sem höfðu þegar tryggt sér efsta sæti C-riðils, unnu Rúmena einnig 2:0 og enduðu því með fullt hús stiga.
Fyrsta mark Ítala kom úr vítaspyrnu Andrea Pirlo sem dæmd var eftir að Eric Abidal, sem lék í stöðu miðvarðar í þessum leik, braut á Luca Toni. Abidal fékk að líta rauða spjaldið fyrir brotið. Seinna markið kom svo eftir aukaspyrnu og var þar að verki Daniele De Rossi en skot hans átti reyndar viðkomu í Thierry Henry.
Hollendingar gerðu níu breytingar á byrjunarliðinu sem lagði Frakka í síðasta leik en unnu engu að síður 2:0 sigur á Rúmenum. Klaas-Jan Huntelaar skoraði fyrra markið og Robin van Persie bætti öðru við skömmu fyrir leikslok.
Hollendingar mæta í átta liða úrslitum sigurvegaranum úr leik Svía og Rússa á morgun. Ef liðin gera jafntefli verða það Svíar sem mæta Hollendingum.