Scolari vill að banni Löw verði aflétt

Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, hefur staðfest að þjálfari Þýskalands, Joachim Löw, verði í banni þegar Þjóðverjar mæta Portúgölum í 8 liða úrslitum EM í knattspyrnu í kvöld. Löw var sendur upp í stúku í leiknum við Austurríki, fyrir orðaskipti sín við fjórða dómara leiksins.

„Hann móðgaði ekki neinn, það kemur skýrt fram í skýrslu dómarans. Hann var sendur upp í stúku án nokkurrar viðvörunar og það var næg refsing fyrir hann að fá ekki að fara aftur á varamannabekkinn eftir leikhlé,“ sagði gamla brýnið Oliver Bierhoff, sem er liðsstjóri þýska liðsins, og bætti við: „Þetta særir hann mikið því þetta er hans stærsti leikur til þessa.“

Luiz Felipe Scolari, þjálfari Portúgals, segir það miður að Löw fái ekki að fylgja sínum mönnum lengra en að leikvanginum í Basel. „Ef ég gæti einhvern veginn haft áhrif á UEFA myndi ég vilja að þessi ákvörðun væri endurskoðuð og að hann yrði á bekknum. Ég myndi fagna UEFA fyrir að breyta afstöðu sinni,“ sagði Scolari.

Löw verður hins vegar ekki sá eini úr þýska hópnum sem þarf að sitja uppi í stúku því markahæsti maður liðsins, Lukas Podolski, er meiddur á kálfa og þá er Torsten Frings einnig tæpur vegna meiðsla. sindris@mbl.is

Luis Felipe Scolari.
Luis Felipe Scolari. Reuters
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert