Þýskaland leikur í undanúrslitum Evrópumótsins í knattspyrnu eftir 3:2-sigur gegn Portúgal í kvöld. Þýskaland var 2:1 yfir í hálfleik og Michael Ballack kom Þjóðverjum í 3:1 um miðjan síðari hálfleik. Portúgal náði að minnka muninn undir lok leiksins en það dugði ekki til. Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu á mbl.is.
Þýskaland mætir sigurliðinu úr viðureign Króatíu og Tyrklands sem eigast við annað kvöld.
Hin fjögur liðin sem eigast við í 8-liða úrslitum eru Holland - Rússland sem leika á laugardag, og Spánn - Ítalía, en sá leikur er á sunnudag. Sigurliðin úr þeim viðureignum leika í hinum undanúrslitaleiknum.
Miðvallarleikmaðurinn Torsten Frings á við smávægileg meiðsli að stríða og var hann á varamannabekknum. Bastian Schweinsteiger er hins vegar í byrjunarliðinu.
Portúgalar gátu hvílt sína sterkustu leikmenn í lokaleik riðlakeppninnar en eru nú með sama byrjunarlið og lagði Tékka að velli 3:1 fyrir rúmri viku.
Lið Portúgala: Ricardo, Paulo Ferreira, Jose Bosingwa, Pepe, Ricardo Carvalho, Armando Petit, Joao Moutinho, Deco, Cristiano Ronaldo, Nuno Gomes, Simao Sabrosa.
Lið Þýskalands: Jens Lehmann, Arne Friedrich, Per Mertesacker, Christoph Metzelder, Philipp Lahm, Simon Rolfes, Bastian Schweinsteiger, Michael Ballack, Thomas Hitzlsperger, Lukas Podolski, Miroslav Klose.