Rússar tryggðu sér í kvöld sæti í undanúrslitum Evrópukeppninnar í knattspyrnu þegar þeir sigruðu Hollendinga, 3:1, í framlengdum leik í átta liða úrslitunum. Þeir mæta Spáni eða Ítalíu sem eigast við á morgun.
Beina textalýsingu má nálgast með því að smella hér.
Roman Pavlyuchenko kom Rússum yfir á 56. mínútu en Ruud van Nistelrooy náði að jafna fyrir Hollendinga þegar fjórar mínútur voru til leiksloka. Í framlenginunni tóku Rússar völdin og skoruðu tvívegis á síðustu átta mínútum hennar, fyrst Dmitri Torbinski og síðan besti maður vallarins, Andrei Arshavin.
Holland komst upp úr C-riðli með því að vinna alla sína leiki og enda þar með í efsta sæti, en Rússar urðu í 2. sæti D-riðils eftir sigra á Svíum og Grikkjum en tap fyrir Spánverjum.
Lið Rússa: Igor Akinfeev, Denis Kolodin, Sergei Ignashevitch, Aleksandr Anyukov, Konstantin Zyryanov, Yuri Zhirkov, Igor Semshov, Sergei Semak, Ivan Saenko, Roman Pavlyuchenko, Andrei Arshavin.
Lið Hollands: Edwin van der Sar, Andre Ooijer, Joris Mathijsen, Khalid Boulahrouz, Nigel de Jong, Rafael Van der Vaart, Giovanni Van Bronckhorst, Wesley Sneijder, Orlando Engelaar, Ruud Van Nistelrooy, Dirk Kuyt.