Guus Hiddink, hollenski þjálfarinn sem er kominn með Rússa í undanúrslit Evrópukeppninnar í knattspyrnu, segir að menn megi ekki gleyma því að rússneska liðið hafi verið stálheppið að komast í úrslitakeppnina í Sviss og Austurríki.
Rússar mæta Spánverjum í undanúrslitum kl. 18.45 í dag og eftir frækna framgöngu þeirra í keppninni eru margir sem spá því að þeir muni leggja spænska liðið að velli og mæta Þjóðverjum í úrslitaleiknum á sunnudaginn.
Rússar komust uppúr undanriðlinum þegar Englendingar töpuðu 2:3 á heimavelli fyrir Króötum í lokaumferðinni, en þar dugði enska liðinu jafntefli til að fara áfram á kostnað Rússanna.
„Nú tala allir um okkur og það er rætt um að ég eigi að fá rússneskan ríkisborgararétt, en ég hef ekki gleymt því hversu erfitt var að komast í þessa keppni. Við unnum góðan sigur á Englendingum en töpuðum hinsvegar fyrir Ísrael. Ef enska liðið hefði ekki tapað fyrir Króötum, værum við ekki hér. Sem betur fór, þróuðust málin þannig og við komumst áfram," sagði Hiddink við enska blaðið Daily Star í dag.
„Ég læt velgengnina hérna ekki stíga mér til höfuðs. Hún sýnir fyrst og fremst að það eru smáatriðin sem ráða úrslitum í fótboltanum. Þegar þú sigrar, telja allir þig vera frábæran þjálfara, en málið er að þegar þú tapar, ertu ekki jafn slæmur og allir telja þig þá vera.
Gleymum því ekki að frammistaða okkar í undankeppninni var köflótt, góð og slæm, en við komumst þó hinga," sagði Guus Hiddink sem hefur náð góðum árangri með fjögur landslið á stórmótum.