Óveður olli sambandsleysi í leik Tyrkja og Þjóðverja

Tugþúsundir Þjóðverja fylgdust með leiknum á götum Berlínar.
Tugþúsundir Þjóðverja fylgdust með leiknum á götum Berlínar. Reuters

Margur knattspyrnuáhugamaðurinn hefur eflaust orðið fyrir vonbrigðum í gærkvöld þegar óveður í Austurríki olli því að nærri 20 mínútur af leik Tyrkja og Þjóðverja í undanúrslitum EM í knattspyrnu náðu ekki augum sjónvarpsáhorfenda um nær allan heim.

Óveðrið olli nokkurra millisekúndna rafmagnsleysi í útsendingarmiðstöð mótsins, sem staðsett er í Vínarborg, sem varð til þess að útsendingarkerfið lá niðri í rúmlega fimm mínútur á meðan endurræsing stóð yfir. Þetta gerðist tvisvar sinnum og í kjölfarið tók Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, þá ákvörðun að skipta yfir í varaaflstöð en til þess þurfti að endurræsa útsendingarkerfið enn einu sinni.

Áhorfendur misstu því af einum fjörugasta lokakafla í leikjum mótsins, því tvö mörk voru skoruð á meðan útsendingin lá niðri, en hún komst aftur í gang í þann mund sem Philipp Lahm skoraði sigurmark Þjóðverja í 3:2 sigri.

„Kerfið var gallað sem olli því að þrátt fyrir rafmagnstruflanirnar var ekki skipt yfir í varaaflsstöðina. Við höfum hins vegar lagfært kerfið og þeir leikir sem eftir eru munu ekki verða truflaðir,“  sagði William Gaillard, fjölmiðlafulltrúi hjá UEFA.

Leikurinn sjálfur fór fram í Basel í Sviss og gat svissneska sjónvarpið sýnt leikinn í heild sinni í gegnum annað útsendingarkerfi. Þýskir áhorfendur misstu jafnframt ekki af neinu því þarlend sjónvarpsstöð notaði merki frá svissneska sjónvarpinu til að koma öllum leiknum til skila.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka