Þjóðverjar lofa Spánverja sem segja þýska liðið sigurstranglegra

Fernando Torres segir Þjóðverja sigurstranglegri.
Fernando Torres segir Þjóðverja sigurstranglegri. Reuters

Leikmenn þýska landsliðsins í knattspyrnu hafa verið ósparir við að lofa leikmenn þess spænska, en þjóðirnar mætast í úrslitaleik Evrópukeppninnar í knattspyrnu á morgun.

„Spánverjar eru eflaust með eitt besta liðið hér á EM og þeir verða að teljast líklegri en við til að sigra. En við höfum líka leikið ágætlega og náð að vinna þá leiki sem máli hafa skipt. Sú var til dæmis raunin á móti Portúgal þar sem flestir bjuggust við að við myndum tapa,“ sagði Oliver Bierhoff, leikmaður þýska liðsins í dag.

 Svo virðist sem flestir telji Spánverja líklegri til sigurs enda þeir einu sem ekki hafa tapað leik í mótinu. Spánverjar eygja nú möguleika á að vinna sinn fyrsta alþjóðlega titil í 44 ár.

„Ég veit ekki hvernig þetta var fyrir 44 árum en eftir að hafa verið með strákunum í heilan mánuð þá get ég fullvissað alla um að þetta er frábær hópur og andrúmsloftið í búningsklefanum er frábært og ég held það hafi mikið að segja,“ sagði Xabi Alonso, leikmaður Spánar í dag.

En Spánverjar vilja ekki hugsa um liðna tíma enda hafa Þjóðverjar mun betur í þeim samanburði. „Þeir vita hvernig það er að vinna titla. Þeir kunna að spila svona leiki og við gerum okkur grein fyrir að við verðum að fara varlega enda eru Þjóðverjar líklegri til sigurs en við,“ segir Fernando Torres, framherji Spánverja.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert