EM: Gæti ekki verið í betra formi

Hólmfríður Magnúsdóttir, fyrir miðju, á æfingu landsliðsins í Tampere í …
Hólmfríður Magnúsdóttir, fyrir miðju, á æfingu landsliðsins í Tampere í dag. mbl.is/Golli

„Þetta er orðið mjög spennandi og loksins er komið að því að keppnin hefjist. Völlurinn lítur frábærlega út og nú  get ég varla beðið eftir því að ganga út á hann á morgun," sagði Hólmfríður Magnúsdóttir landsliðskona í knattspyrnu við mbl.is eftir að hafa skoðað keppnisvöllinn í Tampere í dag.

Ísland leikur gegn Frakklandi á Tampere Stadium á morgun klukkan 17 í fyrstu umferð riðlakeppninnar á EM í Finnlandi.

Hólmfríður á ekki góðar minningar frá leiknum gegn Frökkum síðasta haust, en auk þess sem Frakkar unnu 2:1 var oft brotið illa á henni í leiknum og Hólmfríður þurfti aðhlynningu nokkrum sinnum af þeim sökum. Hún sagðist vissulega hugsa þeim þegjandi þörfina.

„Jú, en ég ætla þó að einbeita mér að því að standa mig vel gegn þeim á vellinum, og læt þær kannski finna aðeins fyrir mér í leiðinni. Ég er vön því, og mitt svar er fyrst og fremst að eiga góðan leik, og það besta væri að leggja upp eitt mark og skora annað.

Stærsta málið er að fara inná völlinn og vinna leikinn. Ef við spilum okkar leik eins og við getum best, og allt gengur 100 prósent upp, þá leggjum við þetta lið að velli.  Ef það tekst, yrði staða okkar góð og þessi leikur skiptir því öllu máli. Ég vona bara að ég geti talað við þig á sömu nótum eftir leikinn annað kvöld," sagði Hólmfríður.

Hún hefur leikið sem atvinnumaður með Kristianstad í Svíþjóð í ár og er mjög ánægð með sitt hlutskipti þar og kveðst vera í mun betri æfingu en áður.

Dvölin í Svíþjóð hefur gert mér gott

„Já, ég er algjörlega laus við meiðsli og gæti ekki verið í betra líkamlegu formi. Dvölin í Svíþjóð hefur gert mér gott og það er ekki verra að með Kristianstad hef ég vanist því að spila „lágpressu", eins og landsliðið gerir gegn sterkari liðum, og er búin að læra mikið af því.

Ég er orðin mikið betri í að spila þetta kerfi en áður, hef lært að skila 100 prósent vinnu í bæði vörn og sókn, og fann í landsleikjunum gegn Englandi og Danmörku að mér gekk betur en áður að spila þannig með landsliðinu. Vonandi skilar það sér í leiknum á morgun," sagði Hólmfríður Magnúsdóttir, sem skoraði bæði gegn Englandi og Danmörku í síðasta mánuði og hefur nú gert 11 mörk í 44 landsleikjum fyrir Íslands hönd.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert