EM: Berum enga virðingu fyrir Noregi

Ólína G. Viðarsdóttir segir íslenska liðið mæta fullt sjálfstrausts í …
Ólína G. Viðarsdóttir segir íslenska liðið mæta fullt sjálfstrausts í leikinn í dag. mbl.is/Golli

„ Við höfum allan tímann sagt að við ætlum uppúr riðlinum og til þess að eiga möguleika á því þurfum við að sigra Noreg. Það er ekkert annað inni í myndinni," sagði Ólína G. Viðarsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, við mbl.is í Lahti um leikinn gegn Noregi sem hefst kl. 17 í dag.

Það er annar leikur Íslands í úrslitakeppni Evrópumótsins. Liðið tapaði 1:3 fyrir Frökkum á mánudag og Noregur tapaði 0:4 fyrir Þýskalandi í hinum leik B-riðilsins. Tvö efstu liðin fara áfram og svo komast liðin í þriðja sæti úr tveimur af þremur riðlum keppninnar einnig í 8-liða úrslitin.

Ólína sagði að íslensku leikmennirnir hefðu hrist tapið gegn Frökkum af sér strax snemma á þriðjudaginn og það væri að baki. „Það eru auðvitað miklar tilfinningar í gangi og þær hurfu ekki á tíu mínútum, en við afgreiddum Frakkaleikinn á þann hátt að við myndum læra af honum og fórum yfir þau atriði sem við ætluðum að bæta. Þar með var það búið og síðan höfum við einbeitt okkur að því að gera betur í næsta leik. Það hefur gengið bara vel að gíra okkur aftur upp, við höfum þjappað okkur saman, haft gaman í hópnum og haft hugfast að þetta er skemmtilegt mót og skemmtilegur og spennandi leikur framundan."

Ólína sagði að þó afrekaskrá norska landsliðsins væri glæsileg væru fínir sigurmöguleikar gegn því í dag. „Já, við unnum þær fyrr norsku á þessu ári og komum í þennan leik með fullt sjálfstraust. Við vitum að þetta er hægt og að við höfum gert það áður, og erum sannfærðar um að við erum með jafngott lið og þær.

Við erum búnar að horfa á eiginlega alla þessa leiki í keppninni, þeir eru endursýndir aftur og aftur á Eurosport, og við höfum skoðað vel leik Noregs og Þýskalands. Það er kannski ekki alveg hægt að dæma norska liðið af þeim leik, þýska liðið er geysilega sterkt og yfirspilaði Norðmenn á köflum. En við sáum t.d. að Norðmenn reyna að sækja mjög hratt og fengum ýmsa punkta sem við getum notað til að búa okkur undir leikinn."

Ólína kvaðst ekki hafa lagt sig eftir því að skoða mikið einstaka leikmenn í norska liðinu og sér væri nokkuð sama hverjar þær væru. „Ég fylgist aðallega með þeim sem líklegast er að ég spili á móti en að öðru leyti horfi ég ekki á einstaka leikmenn sem slíka. Þær norsku eru með mjög sterkt lið og það er enginn einn leikmaður sem vinnur leikinn fyrir þær, eða fyrir okkur.

Við þurfum fyrst og fremst að vera með sterka og þétta liðsheild sem sækir og verst sem einn pakki. Það verður enginn einn sem vinnur þetta uppá eigin spýtur. Við berum enga sérstaka virðingu fyrir neinum leikmönnum í norska liðinu og förum í þær allar af fullum krafti," sagði Ólína G. Viðarsdóttir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert