„Möguleikarnir liðanna eru jafnir, við erum með svipað lið og Norðmenn en spurningin er síðan hvort liðið er harðara í því að ætla að sigra," sagði Guðni Kjartansson, hinn reyndi aðstoðarþjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við mbl.is.
„Þetta er allavega mat mitt útfrá síðustu leikjum og við þekkjum fyrst og fremst okkar lið en norska liðið þekkjum við aðallega útfrá síðasta leik þess. En aðalmálið er að allar séu tilbúnar í slaginn þegar á reynir."
Guðni sagði að þeir þjálfararnir væru búnir að skoða norska liðið mjög vel. „Já, við höfum gert það eins og venjan er, en síðan er þetta spurning hversu langt það dugar okkur. Þeir geta breytt ýmsu í sínum leik og við líka.
Ég hef ágæta tilfinningu fyrir leiknum. Stúlkurnar eru búnar að jafna sig nokkurn veginn eftir sinn fyrsta leik í úrslitakeppni sem gekk ekki alveg upp. Það er ný reynsla fyrir þær að spila í svona stórmóti og það er fyrst og fremst gaman, en þær voru sárar eftir tapið. Það er eðlilegt og sýnir bara hve staðráðnar þær voru í að standa sig.
Nú er eina leiðin að hætta að væla og hugsa bara um næsta leik og ég held að þær séu algjörlega tilbúnar í það. Við höfum reynt að hjálpa þeim til þess, og þær vita vel að þær geta gert góða hluti. Það hefur sést í þessu móti að liðin geta unnið hvert annað og komið á óvart, eins og Finnarnir gegn Dönum og Ítalirnir gegn Englendingum. Við verðum bara að halda áfram og reyna að standa okkur," sagði Guðni Kjartansson.
Leikur Íslands og Noregs hefst í finnsku borginni Lahti klukkan 17 og verður að vanda í beinni textalýsingu hér á mbl.is.