„Mér fannst við spila seinni hálfleikinn mjög vel, við lögðum allt í hann og ég er mjög ósáttur við að tapa þessum leik," sagði Sigurður Ragnar Eyjólfsson landsliðsþjálfari Íslands eftir 0:1 ósigur gegn Noregi í Lahti í kvöld. Úrslitin þýða að Ísland á ekki lengur möguleika á að komast í 8-liða úrslitin.
"Við byrjuðum leikinn mjög vel og fengum tvö góð færi til að skora strax, Hólmfríður komst ein í gegn og Dóra María skaut í stöng. Síðan fengum við á okkur mark á versta tíma, á síðustu sekúndunni í fyrri hálfleik, og það var talsvert högg fyrir liðið. En ég vil hrósa mínum leikmönnum fyrir það að rífa sig upp og spila mun betur en í fyrri hálfleiknum. Við settum norska liðið undir talsverða pressu en sköpuðum okkur ekki nægilega opin færi," sagði Sigurður Ragnar.