EM: Við ætlum aftur á stórmót

Margrét Lára Viðarsdóttir á fullri ferð í átt að norska …
Margrét Lára Viðarsdóttir á fullri ferð í átt að norska markinu. mbl.is/Golli

„Þetta er gríðarlegt svekkelsi, við vorum búnar að setja okkur háleit markmið og það er alltaf leiðinlegt að horfast í augu við það að hafa ekki náð þeim," sagði Margrét Lára Viðarsdóttir, framherji íslenska kvennalandsliðsins, við mbl.is eftir tapið gegn Noregi á EM í Finnlandi í kvöld.

„Við getum hinsvegar farið héðan stoltar, við höfum lagt okkur vel fram og að mínu mati tapaði betra liðið í dag. En það er ekki spurt að því, heldur hvort liðið skorar fleiri mörk, og við verðum að sætta okkur við það. Við fengum hálffæri, en það vantaði dauðafærin, það vantaði að ljúka sóknunum nægilega vel, koma boltanum fyrir eða ná skoti á markið.

En við fengum færi, ég var nánast búin að sjá boltann í markinu hjá Hólmfríði þarna á fyrstu mínútunni, og það sýnir að það tekur ekki nema 10 sekúndur að skora eitt mark. Það er hægt að gera það hvenær sem er. Svo hef ég sjaldan séð bolta fara jafnmikið í innanverða stöngina, án þess að fara inn, þegar Dóra María var rétt búin að skora skömmu síðar. Þetta voru stór atriði í leiknum sem féllu ekki okkar megin. Betra liðið tapaði í þetta sinn.

En við erum reynslunni ríkari eftir að hafa spilað á svona stórmóti , sem er mikil upplifun. Við gáfum allt okkar í þetta og getum farið héðan stoltar. Við áttum frábæra stuðningsmenn, þá bestu í Evrópu eins og þeir sönnuðu hérna. Það var yndislegt að sjá allt þetta fólk hérna, og synd að fá ekki stig fyrir það. Þau fást víst inni á vellinum og það gekk ekki eftir."

Margrét Lára sagði að það væri nóg framundan til að stefna á. „Jú, við ætlum okkur að komast aftur á stórmót og núna er það undankeppni HM sem við einbeitum okkur að. Það má ekki gleyma því að við erum með frekar ungt lið og eigum ekki eftir að missa marga leikmenn úr hópnum á næstu árum. Það er gríðarlega sterkt atriði.

Svo er frábært að ljúka keppninni hér með því að spreyta sig á móti Þýskalandi og það væri ljúft að standa í þeim, jafnvel taka stig. Það er allt hægt í fótbolta og það væri frábært að ná einhverju gegn þýska liðinu á sunnudaginn. Ef við förum í þann leik með sama hugarfar og í kvöld getur allt gerst," sagði Margrét Lára.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert