„Brosin eru komin aftur og þetta eru reynslumiklir leikmenn sem átta sig á því að það má ekki svekkja sig lengi á síðasta leik því það er alltaf næsti leikur sem er mikilvægastur,“ sagði Sigurður Ragnar Eyjólfsson, landsliðsþjálfari kvenna í knattspyrnu, við Morgunblaðið í Lahti í gær.
„Við lítum á leikinn gegn Noregi sem úrslitaleik, við verðum að vinna hann til að eiga möguleika á að komast í 8-liða úrslit og munum leggja allt í sölurnar. Norska liðið hefur bætt við sig sterkum leikmönnum frá því við sigruðum það 3:1 á Algarve í vetur, gegn Þýskalandi léku fimm sem voru ekki með gegn okkur, og það er því ljóst að allar þurfa að eiga góðan leik til að geta lagt svona sterkt lið að velli. Það þarf allt að ganga upp hjá okkur,“ sagði Sigurður Ragnar.
vs@mbl.is