EM: Ég hata að tapa

Edda Garðarsdóttir í baráttu við Simone Laudehr í leiknum í …
Edda Garðarsdóttir í baráttu við Simone Laudehr í leiknum í dag. mbl.is/Golli

„Ég hata að tapa en mér fannst við gera marga hluti mjög vel. Í svona leik sést vel hvað vantar uppá hjá okkur og við eigum ekki langt í land með að komast enn lengra," sagði miðjumaðurinn Edda Garðarsdóttir við mbl.is eftir ósigurinn gegn Þjóðverjum, 0:1, á EM í knattspyrnu í Tampere í dag.

„Þær þýsku eru með fáránlega nákvæmar sendingar og eru firnasterkar. En okkar leikkerfi í dag snerist um að gefa þeim eins lítið svæði til að vinna á og mögulegt var og það virkaði vel nánast allan tímann. Okkur gekk vel að halda aftur af þeim og hefðum svo  getað skorað eitt, jafnvel tvö mörk í leiknum. Það börðust allir vel og gerðu það sem var lagt upp með, og þær sem höfðu ekki spilað mikið í mótinu og fengu tækifæri í þessum leik stóðu vel fyrir sínu. Það er mjög margt jákvætt sem við getum tekið með okkur úr leiknum."

Edda lagði upp annað af bestu færunum, tók hornspyrnu og Þjóðverjar björguðu á marklínu frá Katrínu Jónsdóttur. „Já, ég hélt að Kata myndi skora, ég hef nokkrum sinnum sent á hana einmitt þarna og hún hefur sett boltann  beint í markið. En þetta var eins og allt annað hjá okkur í mótinu, þær voru með leikmann í þessu horni en ekki hinu, og þeim tókst að bjarga á marklínunni. Svo fannst mér markið þeirra pínu vafasamt, ég hélt að Guðbjörg hefði verið með boltann þegar þær skoruðu."

Stuðningsmennirnir búnir að bjarga okkur

Edda var sérlega ánægð með þann stuðning sem liðið fékk af áhorfendapöllunum alla keppnina. Sennilega var hann bestur í þessum leik, gegn Þýskalandi, en fögnuðurinn og stemmningin voru slík í leikslok að það var eins og Ísland hefði lagt heimsmeistarana að velli.

„Þessir stuðningsmenn okkar eru búnir að bjarga okkur í keppninni. Það er glatað að hafa tapað þremur leikjum þrátt fyrir að hafa lagt allt í sölurnar og við værum búnar að tapa okkur gjörsamlega ef þetta fólk væri ekki hérna. Ég á eina vinkonu í finnska landsliðinu sem ég heyrði í og hún sagðist vera búin að frétta til Helsinki hvað íslensku stuðningsmennirnir væru frábærir," sagði Edda Garðarsdóttir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert