„Ég hef ekki mætt þeim áður í A-landsleik en í þessu þýska liði eru einir fimm leikmenn sem ég spilaði með þegar ég var hjá Duisburg á sínum tíma," sagði Margrét Lára Viðarsdóttir, framherji íslenska landsliðsins, við mbl.is en hún kannast við nokkra mótherja sína úr þýska liðinu sem það íslenska mætir á EM í Tampere í dag klukkan 13.
„Þær Inka Grings, Annika Krahn, Fatmire Bajramaj og Simone Laudehr sem hafa allar skorað hérna á EM spiluðu með mér í Duisburg og það verður gríðarlega gaman að mæta þeim. Það er hver stjörnuleikmaðurinn á fætur öðrum í þessu þýska liði en við förum í þetta eins og hvern annan leik.
Við ætlum að njóta þess að spila og auðvitað eru það forréttindi að leika gegn þessu liði og leikmönnum í svona keppni. Við reynum bara að stríða þeim eins mikið og við mögulega getum," sagði Margrét Lára sem var í röðum Duisburg hluta tímabilsins 2006-2007.
Ég held að þetta geti orðið opinn og skemmtilegur leikur. Þjóðverjar hvíla eflaust einhverja leikmenn fyrst þeir eru búnir að tryggja sér efsta sætið en þeir eru bara með svo frábæra varamenn að það skiptir engu máli. Þeir leikmenn vilja sanna sig, og við viljum spila fyrir stoltið svo þetta gæti orðið fjörugt. Við vonum það besta, leggjum okkur fram eins og við getum og vonandi verður það til þess að við náum góðum úrslitum.
Við eigum eftir hörkuleiki í haust, m.a. gegn Frökkum, og það er því kærkomin reynsla að spila svona leiki. Nú erum við að undirbúa okkur fyrir undankeppni HM, þó við séum enn í þessu verkefni. Þessi leikur nýtist okkur í þeim undirbúningi og það er ljóst að við munum bíta frá okkur," sagði Margrét Lára.