EM: Spiluðum frábæran varnarleik

Guðrún Sóley Gunnarsdóttir með boltann í leiknum í dag.
Guðrún Sóley Gunnarsdóttir með boltann í leiknum í dag. mbl.is/Golli

„Ég er sátt við allt nema markið sem við fengum á okkur, og færin sem við nýttum ekki," sagði Guðrún Sóley Gunnarsdóttir miðvörður íslenska landsliðins í knattspyrnu eftir 0:1 ósigurinn gegn Þýskalandi á EM í Tampere í dag.

Guðrún lék mjög vel í hjarta íslensku varnarinnar og steig varla feilspor undir þungri pressu þýska meistaraliðins.

„Þetta var smá einbeitingarleysi þegar þær skoruðu markið en annars spilaði liðið í heildina frábæran varnarleik. Við lágum aðeins aftar en í hinum leikjunum, það var það sem við þurftum að gera í dag, og þá vantaði bara að nýta þessi góðu færi sem við fengum. Margrét og Katrín hefðu svo hæglega getað skorað."

Guðrún sagði að það hefði ekki verið sérstaklega erfiðara að spila gegn þýska liðinu en gegn Frökkum og Norðmönnum. „Það var kannski vegna þess að nú fengum við svo mikla hjálp frá öllu liðinu til að verjast. Þetta voru því ekki meiri hlaup en í hinum leikjunum, og með því að gefa Þjóðverjunum engin svæði til að spila í gerðum við þetta auðveldara en ella. Við lokuðum bara á allt. Það var samt mun meira að gera í vörninni því þær þýsku voru það mikið með boltann, en það var langt frá því að vera  stressandi, og mér fannst þær ekki skapa sér mörg opin færi."

Guðrún kvaðst fara sæmilega sátt frá Finnlandi. „Ég er ósáttust við byrjunina, við lentum í mótlæti í fyrsta leiknum sem varð kannski til vegna þess að þetta var fyrsti leikurinn. Mér fannst við spila vel á móti Norðmönnum og í dag. Með smá heppni hefðum við náð í stig úr þessum leikjum. En það er frábært að hafa fengið tækifæri til að spila á þessu móti og við komum sterkari til leiks í næsta skipti. Við þurfum ekki að skammast okkar fyrir frammistöðuna gegn þremur af sjö bestu liðum í heimi," sagði Guðrún Sóley.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert