Norska kvennalandsliðið í knattspyrnu kom mjög á óvart í dag með því að sigra hið sterka lið Svía, 3:1, í átta liða úrslitunum í Evrópukeppni kvenna í Finnlandi. Noregur og Þýskaland, sem bæði unnu Ísland 1:0 í riðlakeppninni, mætast því í undanúrslitum á mánudag.
Flestir reiknuðu með því að Svíar færu með sigur af hólmi og myndu mæta Þjóðverjum í risaslag í undanúrslitunum. Norska liðið komst hinsvegar í 2:0 með tveimur mörkum undir lok fyrri hálfleiks. Fyrst gerði Stina Segerström sjálfsmark og síðan skoraði Anneli Giske.
Hin 18 ára gamla Cecilie Pedersen, sem gerði sigurmarkið gegn Íslandi, kom inná sem varamaður og skoraði á 60. mínútu, 3:0.
Það var of mikið fyrir Svía sem sóttu þó talsvert og Victoria Svensson náði að minnka muninn í 3:1 með skalla eftir hornspyrnu á 80. mínútu. Það var ekki nóg og sænska liðið er á heimleið yfir hafið frá Finnlandi.