Dómararnir: Var aldrei víti

Íslensku leikmennirnir fagna sigrinum í leikslok.
Íslensku leikmennirnir fagna sigrinum í leikslok. Reuters

Dönsku dómararnir Per Olesen og Lars Ejby Pedersen segjast vera algjörlega vissir um að þeir hafi haft rétt fyrir sér þegar þeir dæmdu ekki vítakast á Íslendinga hálfri mínútu áður en leiknum dramatíska gegn Norðmönnum lauk á EM í handbolta í Vrsac.

Ísland var yfir, 33:32, og 25 sekúndur eftir af leiknum þegar Bjarte Myrhol fór innaf línunni og skaut aftur fyrir sig en Björgvin Páll Gústavsson varði. Ísland fékk boltann og Róbert Gunnarsson innsiglaði sigurinn, 34:32.

Norðmenn urðu æfir yfir þessu atviki, töldu sig eiga að fá vítakast þar sem brotið hefði verið á Myrhol og mótmæltu harkalega í leikslok.

„Viðbrögð þeirra eru skiljanleg, þetta var heldur betur mikilvægt augnablik, en þau voru þó einum of hörð. Við munum skoða þetta betur af myndbandi en tilfinningin er sú að þetta hafi verið rétt. Auðvitað gerum við mistök, en við höfum fengið skilaboð frá dómurum heima að þetta hafi verið hárrétt hjá okkur," sagði Olesen við VG eftir leikinn.

„Þaðan sem ég stóð var greinilegt að Myrhol sneri baki í markið. Þar með var þetta aldrei vítakast," sagði Pedersen.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert