Veðbankar fylgjast grannt með Evrópukeppni 21-árs liðanna í Danmörku eins og öðrum stórmótum í fótboltanum. Unibet hefur gefið út spár og stuðla fyrir mótið og telur Ísland vera í 6.-7. sæti af liðunum átta sem leika um Evrópumeistaratitilinn.
Sérfræðingar Unibet segja að keppnin sé óvenjulega sterk í ár og þar nægi að nefna að Spánverjar séu með tvo heimsmeistara úr A-landsliðinu í sínum hópi, þá Javi Martinez og Juan Mata. Ríkjandi meistarar, Þjóðverjar, hafi ekki einu sinni komist í úrslitakeppnina, fyrst og fremst vegna þess að þeir töpuðu 4:1 fyrir Íslandi.
Spánverjar eru taldir líklegastir sem sigurvegarar og síðan Englendingar en Danir og Tékkar koma þar á eftir. Unibet setur eftirfarandi líkur á liðin átta:
Spánn 2,65
England 5,0
Danmörk 7,0
Tékkland 7,0
Sviss 9,0
Ísland 11,0
Úkraína 11,0
Hvíta-Rússland 21,0